Flæði og Lagarfljótsormurinn
Tvær sýningar verða opnaðar á Skriðuklaustri á pálmasunnudag, 1. apríl. Annars vegar er það sýningin Flæði í gallerí Klaustri sem er unnin af Ólöfu Björk Bragadóttur (Lóa) í samvinnu við Sigurð Ingólfsson ljóðskáld. Lagarfljótið og litaspil þess er uppspretta hugmynda að verkinu Flæði og þeim málverkum sem Lóa sýnir. Hin sýningin er um Lagarfljótsorminn og var áður sett upp sumarið 2007 en gengur nú í endurnýjun lífdaga í kjölfar heimsfrægðar ormsins í netheimum. Opið verður um páskana á Skriðuklaustri á sýningar og í hádegisverð og kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi sem hér segir: Kl. 12-17 á pálmasunnudag, föstudaginn langa, laugardaginn 7. apríl og á annan í páskum. Lokað á skírdag og páskadag. Árleg píslarganga Gunnarsstofnunar í samvinnu við prestana á Héraði verður frá Valþjófsstaðarkirkju í Skriðuklaustur á föstudaginn langa kl. 11. Snæfellsstofa verður einnig opin laugardaginn 7. apríl og á annan í páskum.
- Created on .