Fréttir 2010
6. desember 2010
Þorleifur Hauksson las Aðventu 2009.
Sunnudagur 12. desember:
Aðventuganga Benedikts á Klaustri, í Reykjavík og Kaupmannahöfn
Skáldsagan Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson er klassískt verk sem margir taka sér í hönd í desember, ekki bara hér á landi heldur einnig erlendis. Sá siður var tekinn upp hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri árið 2005 að lesa alla Aðventu Gunnars Gunnarssonar upphátt fyrir gesti á þriðja sunnudegi í aðventu. Óhætt er að segja að þessi siður hafi breiðst út því að Ríkisútvarpið hefur nú í nokkur ár haft Aðventu sem útvarpssöguna á Rás 1 síðustu vikuna fyrir jól með nýjum lesara hverju sinni. Þá hefur Aðventa einnig verið lesin hjá Rithöfundasambandi Íslands í Gunnarshúsi í Reykjavík á sama tíma og á Skriðuklaustri.
Að venju verður Aðventa lesinn á Skriðuklaustri nk. sunnudag, 12 des. Lesturinn hefst kl. 14 og að þessu sinni les Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona söguna. Allir eru velkomnir til að njóta kyrrðarstundar frá jólaamstrinu og gestir geta fengið sér jólakökur og heitt súkkulaði hjá Klausturkaffi. Á sama tíma stendur Rithöfundasambandið fyrir upplestri á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík og hefur Silja Aðalsteinsdóttir, ritstjóri og fræðikona, lesturinn kl. 13.30. Þeir sem eru staddir í Kaupmannahöfn geta notið lesturs Aðventu í Jónshúsi því að öðru sinni stendur Sendiráð Íslands í samvinnu við Jónshús og Bókasafn Jónshúss nú fyrir lestri á sögunni. Í Jónshúsi hefst lesturinn kl. 15 að staðartíma og meðal lesara verður Sturla Sigurjónsson sendiherra.
Boðskapur Aðventu um þrautseigju og þolgæði Benedikts og förunauta hans, hundsins Leós og sauðsins Eitils, á heilmikið erindi við Íslendinga í dag. Sagan er í raun tímalaus þó að söguefnið sé sótt í raunverulegar svaðilfarir á Mývatnsöræfum á þriðja áratug síðustu aldar. Og allt frá því hún kom fyrst út árið 1936 hefur hún heillað lesendur víða um heim og m.a. verið endurútgefin reglulega í Þýskalandi þar sem hún hefur selst í um hálfri milljón eintaka á síðustu 70 árum.
5. desember 2010
Aðventudagskráin framundan:
Frábærar teikningar af Grýlu og hyski hennar
Gunnarsstofnun efndi til samkeppni meðal austfirskra grunnskólabarna í 6. og 7. bekk um teikningar af Grýlu og hyski hennar fyrir litabók sem ætlunin er að gefa út á næsta ári. Um 100 teikningar bárust, hver annarri glæsilegri og hanga þær nú uppi í gallerí Klaustri.
Þær tíu teikningar sem valdar hafa verið til að prýða litabók um Grýlu eru eftir eftirtalda listamenn:
Katla Heimisdóttir 6. bekk Nesskóla
Haukur Ingólfsson 6. bekk Nesskóla
Írena Fönn Clemmensen 7. bekk Nesskóla
Jóna María Aradóttir 6. bekk Nesskóla
Stefán Ingi Ingvarsson, 6. bekk Nesskóla
María Rún Karlsdóttir, 7. bekk Nesskóla
Magnea Ásta Magnúsdóttir 7. bekk Nesskóla
Andrea Björk Guðbjartsdóttir 7. bekk Nesskóla
Guðný Edda Guðmundsdóttir 7. bekk Brúarásskóla
Stefán Berg Ragnarsson 7. bekk Brúarásskóla
17. nóvember 2010
Aðventudagskráin framundan:
Rithöfundar, Grýla, jólahlaðborð og Aðventulestur
Vegna anna í jólahlaðborðum á Klaustri verða næstu tvö lomberkvöld í þéttbýlinu. Spilað verður föstud. 19. nóv. kl. 20 í Bókakaffi í Fellabæ og föstud. 10. des. kl. 20 í Hlymsdölum.
Ferð í fótspor Fjalla-Bensa hefur verið tekin í fóstur af Mývetningum og verður leiksýning Möguleikhússins ásamt litlu málþingi og ferð á söguslóðir 26. og 27. nóv. þar nyðra. Nánar hægt a forvitnast um það m.a. hjá jólasveinunum í Mývatnssveit.
Rithöfundalestin árvissa brunar í hlað á Klaustri laugard. 27. nóv. kl. 15. Þá lesa Bragi Ólafsson, Kristín Steinsdóttir, Sigrún Pálsdóttir og Ævar Örn Jósepsson úr verkum sínum. Sömu höfundar lesa á Vopnafirði á föstudagskvöld og í Skaftfelli á Seyðisfirði á sunnudaginn. Það kostar 1.000 kr. inn á upplesturinn, 500 kr. fyrir eldri borgara og innifalinn er kaffisopi. Bækur höfunda verða seldar á staðnum.
Grýla gamla lætur á sér kræla sunnud. 28. nóv. kl. 14. Þá munu gaulálfar og sagnálfar segja frá og syngja um Grýlu og hyski hennar. Einnig verða kynnt úrslit í keppni meðal 6. og 7. bekkingar á Austurlandi um grýluteikningar fyrir litabók. Að sjálfsögðu verður jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi að lokinni Grýlugleðinni.
Að venju lýkur dagskrá ársins á Klaustri með upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar í skrifstofu skáldsins þriðja sunnudag í aðventu, 12. des. kl. 14. Að þessu sinni les Ragnheiður Steindórsdóttir. Á sama tíma verður opið í jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi. Sama dag verður Aðventa bæði lesin í Kaupmannahöfn og í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík.
Jólahlaðborðin hjá Klausturkaffi hefjast 26. nóv. og þeim lýkur 11. des. Enn er eitthvað laust af borðum og áhugasömum bent á að snúa sér til Elísabetar í síma 471-2992 eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
4. nóvember 2010
Margt á döfinni á Dögum myrkurs:
Dönsk list, djöflatertur og námskeið um Grýlu
Eitt og annað verður á döfinni á Klaustri á Dögum myrkurs. Lomberkvöld föstudaginn 5. nóvember kl. 20. Sunnudaginn 7. nóvember verður síðan opið kl. 14-17 og þá býður Klausturkaffi upp á sitt árvissa súkkulaðikökuhlaðborð. Danska listakonan Honey Biba Beckerlee sýnir videóverkið Truth Games, The Role and Performances sem hún vann með Kötju Boom Philip og fékk 3. verðlaun Brygger J.C. Jacobsens Portrætpris.
Laugardaginn 13. nóv. verður námskeiðið Ég þekki Grýlu í samvinnu við Þekkingarnet Austurlands. Á því verður fjallað um tröllkonuna Grýlu og austfirska grýlukvæðahefð. Námskeiðið stendur frá kl. 10-16 og verður endað á að kíkja á söguslóðir í Fljótsdal. Skráning er á www.tna.is.
20. september 2010
Lokahelgi sumarsins er framunda:
Síðasta sýningarhelgi allra sýninga og frumflutningur á dans-og tónverki
Framundan er lokahelgi sumarsins og opið verður laugardag og sunnudag kl. 12-17. Síðustu hlaðborðin hjá Klausturkaffi í bili og síðasta tækifæri til að sjá Fjallasýn, sumarsýninguna í stássstofu, sem og Kvik myndasýningu í gallerí Klaustri. Laugardaginn 25. sept. verða síðan dansarinn Megan Harrold og tónskáldið og gítaristinn Charlie Rauh með frumflutning á dans- og tónverki sem þau hafa unnið að undanfarnar vikur í gallerí Klaustri.
Verkið er fyrir dansara og gítar og byggir á sýnum nunnunnar Hildegard von Bingen (1098-1179). Hildigerður þessi var uppi á 12. öld og skrifaði um undarlegar sýnir sem segir frá í ritverkinu Scivias. Verk þeirra Charlie og Megan er samið út frá hinum skrifaða texta og orð og lýsingar yfirfærðar í dans og tóna. Einnig er það undir áhrifum frá tungumáli sem Hildigerður bjó sjálf til með eigin stafrófi.
Dans-og tónverkið er með stíganda og líkist lyftuferð þar sem samspil tónlistarmanns og dansara færir verkið frá einni hæð á aðra. Flutningur þess er því á vissan hátt spuni sem þó fylgir ákveðnum kjarna sem byggir á samhljómi listamannanna.
Verkið verður sýnt í Snæfellsstofu Vatnajökulsþjóðgarðs kl. 15.00 á laugardaginn og er aðgangur ókeypis. Sjá nánar um listamennina á culturalreflex.webs.com
24. ágúst 2010
Síðasta sýning sumarsins í gallerí Klaustri:
KVIK myndasýning opnuð föstudaginn 27. ágúst
Sýningu Önnu Sigríðar Sigurjónsdóttur, FLEY, lýkur í gallerí Klaustri nk. fimmtudag. Á föstudaginn verður síðan opnuð ný sýning í galleríinu sem er sú síðasta í sumar. Sú ber heitið Kvik myndasýning og að henni stendur hópur listamanna með austfirska tengingu. Þeir eru: Stuart Richardson, GLAMOUR (Karna&Sebastian), Þórunn Gréta og Jane Ade. Sýningin er í myndum og hljóði. Opnun fer fram kl. 17 föstudaginn 27. ágúst og eru allir velkomnir á opnun. Sýningin stendur út september og er opin á opnunartíma Gunnarshúss sem er kl. 10-18 alla daga fram til mánaðarmóta en 1. sept. styttist opnunartíminn í kl. 12-17. Áfram verður opið alla daga til 19. sept. og síðan helgina eftir það, 25.-26. sept.
Rétt er að þakka hér þeim fjölmörgu sem mættu á Fljótsdalsdaginn og skemmtu sér á Skriðuklaustri. Rúmlega 500 manns nutu tónleika Hvanndalsbræðra í boði Fljótsdalshrepps sem reyndar varð vegna veðurs að flytja inn í Snæfellsstofu. Flestir tóku síðan þátt í Þristarleikum og fleiru skemmtilegu.
20. ágúst 2010
Fljótsdalsdagur Ormsteitis á sunnudaginn:
Gönguferð, veiðikeppni, fjárdráttur, myndasamkeppni, sultukeppni að ógleymdum tónleikum Hvanndalsbræðra
10:00 Gönguferð um Ranaskóg í samvinnu við Ferðafélag Fljótsdalshéraðs.
Veiðikeppni í Bessastaðaá, mæting við Melarétt
12:00 Opið hús í Upplýsingamiðstöð Landsvirkjunar í Végarði og hjá Fljótsdalsgrund.
Léttar veitingar og verðlaunaafhending í veiðikeppni.
Kosning hefst í Snæfellsstofu í myndasamkeppni Ormsteitis.
Hádegishlaðborð hjá Klausturkaffi
13:30 Dagskrá á Skriðuklaustri
Tónleikar með Hvanndalsbræðrum
Þristarleikar:
Keppni í fjárdrætti, steinatökum, rabarbaraspjótkasti og pokahlaupi.
Sultukeppni:
Fólk mætir með heimagerðar sultur eða hlaup og dómnefnd velur þá bestu.
Rababarakeppni barnanna:
Börnin mæta með rabarbaraleggi, dæmt eftir lengd frá rót að blaði.
Úrslit kynnt í myndasamkeppni.
Kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi.
16:30 Guðsþjónusta við rústir Skriðuklausturs
Ormsteiti slitið.
20. júlí 2010
Erindi um tónlist sunnudaginn 25. júlí:
Enrico Correggia segir frá tónsmíðum sínum
Sunnudaginn 25. júlí kl. 17 mun ítalska tónskáldið og stjórnandinn Enrico Correggia segja frá tónsmíðum sínum og tónlistarverkefnum. Correggia dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni Klaustrinu og vinnur að tónverki um Ísland sem flutt verður á tónlistarhátíð í Toríno í haust. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.
4. júlí 2010
Sé ég vítt um í gallerí Klaustri:
Sýningar og fyrirlestrar á næstunni
Föstudaginn 2. júlí opnaði Jónína Guðnadóttir sýningu á verkum úr leir og tré í gallerí Klaustri. Á sýningunni eru skepnur eða verur tengdar lofti, láði og legi. Sýningin er unnin sérstaklega fyrir rýmið enda Jónína þekkt fyrir að fást meira við stærri verk. Eftir hana er m.a. verkið Hringiða við aðalstíflu Kárahnjúkavirkjunar. Sýning Jónínu stendur til 28. júlí.
Fornleifafræðingarnir eru mættir á svæðið og byrjaðir að grafa í klausturrústunum á Skriðuklaustri. Skriðuklaustursrannsóknir hafa tekið upp samstarf við háskóla í Svíþjóð og í tengslum við það verða tvö erindi flutt á næstunni á Skriðuklaustri. Þriðjudagskvöldið 6. júlí, kl. 21.00 flytur sænskur doktorsnemi í fornleifafræði erindi um læknisfræði og fornleifarannsóknir. Mánudagskvöldið 12. júlí kl. 20.00 flytur dr.Cornelius Holtorf, prófessor í fornleifafræði við Linneus-háskólann í Kalmar, erindi um áhrif fornleifarannsókna á nærsamfélag sitt. Báðir fyrirlestrarnir fara fram á ensku. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
12. maí 2010
Sumarsýningin Fjallasýn:
Ráðherra opnar Fjallasýn 18. maí
Sumarið er gengið í garð á Skriðuklaustri og þakið óðum að grænka. Á fæðingardegi Gunnars, 18. maí, verður mikið um dýrðir. Þá verða opnaðar tvær sýningar. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mun opna stóru sumarsýninguna Fjallasýn. Sýningin er unnin í samvinnu við Þórbergssetur og er hluti hennar á Hala í Suðursveit. Á sýningunni er fjallað um upplifun listamanna og skálda af Herðubreið, Snæfelli og Öræfajökli í listaverkum og textum. Sýnd eru verk eftir Guðmund frá Miðdal, Ásgrím Jónsson, Georg Guðna, Hring Jóhannesson, Stórval, Finn Jónsson og Þorvald Óttar. Allir velkomnir á opnun kl. 16.30. Sýningin nýtur styrks frá Menningarráði Austurlands.
PARTIAL MEMORY - sýning í gallerí Klaustri
Bandaríska listakonan Jovanna Tosello dvelur í gestaíbúðinni Klaustrinu um þessar mundir. Hún opnar sýningu á verkum sínum í gallerí Klaustri þriðjudaginn 18. maí. Sýningin stendur til 6. júní. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um listakonuna á heimasíðu hennar: www.jovannatosello.com.
Á MÖRKUNUM - tónleikar í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík
Ásgerður Júníusdóttir messósópran og Jónas Sen píanóleikari flytja þekkt sönglög eftir Björk Guðmundsdóttir, Gunnar Reyni Sveinsson og Magnús Blöndal Jóhannsson. Tónleikarnir eru hluti af Listahátíð í Reykjavík. Aðeins 40 sæti í boði og því brýnt að panta miða. Verð 2900 kr. en 2500 kr. fyrir Klausturreglufélaga.
FREYJUGINNING - Christina Sunley af Vefaraætt kynnir bók sína
Fyrir nokkrum árum dvaldi Christina Sunley í Klaustrinu við bókarskrif. Hún er af íslenskum ættum, m.a.s. af Vefaraættinni í Fljótsdal, og valdi að skrifa skáldsögu byggða á sinni eigin fjölskyldusögu. Bókin er nú komin út á ensku og íslensku og mun Christina lesa úr henni og segja frá ritun hennar sunnudaginn 6. júní kl. 16. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.
20. apríl 2010
Sumardagurinn fyrsti og helgin:
Fiðlutónleikar, sýningaropnun og lomber
Sumardagurinn fyrsti verður að venju stór dagur hér á Skriðuklaustri. Tónleikar, opnun sýningar og kaffihlaðborð. Síðan er lomber á föstudagskvöldið kl. 20 og á laugardag og sunnudag verður opið kl. 13-17 og kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi.
FIÐLUTÓNLEIKAR Á SUMARDAGINN FYRSTA
- Halla Steinunn Stefánsdóttir leikur Allt nema Bach
Halla Steinunn Stefánsdóttir nam fiðluleik hjá Guðnýju Guðmundsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík og Elisabeth Zeuthen Schneider við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium þaðan sem hún útskrifaðist 2001. Hún útskrifaðist frá Indiana University School of Music með P.D. í barokkfiðlu árið 2004. Halla Steinunn hefur komið fram á tónleikum og tónlistarhátíðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún er stofnandi og listrænn stjórnandi Nordic Affect auk þess sem hún er í forsvari fyrir barokksveitina Camerata Drammatica.
Á efnisskrá á Skriðuklaustri eru verk eftir tónskáld frá 17. og 18. öld, Baltzar, von Biber, Vilsmayr og Telemann. En einnig verður flutt nýtt verk eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur sem kallast Sofandi pendúll.
Tónleikarnir eru hluti af Landsbyggðartónleikum FÍT.
TÓNLEIKARNIR HEFJAST KL. 15 OG AÐGANGSEYRIR ER KR. 1.000. (750 kr. fyrir Klausturreglufélagar)
MASAKI UMETSU SÝNIR Í GALLERÍ KLAUSTRI
- sýningaropnun á sumardaginn fyrsta
Masaki Umetsu er japanskur listamaður sem dvelur nú í gestaíbúðinni Klaustrinu. Hann hefur getið sér gott orð víða um lönd fyrir innsetningar sínar þar sem hann vinnur með ljós og gras sem vex upp af fræjum í formgerðu landslagi. Sýning hans í gallerí Klaustri stendur næsta mánuðinn og verður sérstaklega áhugavert að sjá hvernig verkið mun breytast dag frá degi þegar grasið fer að vaxa. Myndin hér að ofan er frá innsetningu hans Germinalabo í Centre d'art i natura í Pýreneafjöllunum.
SÝNINGAROPNUN ER SUMARDAGINN FYRSTA KL. 13-17.
7. apríl 2010
Opið næstu sunnudaga:
Tónleikar og sýningaropnun á sumardaginn fyrsta
Næstu tvo sunnudaga, 11. og 18. apríl, verður opið á Skriðuklaustri frá kl. 13-17. Kaffihlaðborð verður hjá Klausturkaffi og opið á sýningar. Sunnudagurinn 11. apríl er jafnframt síðasti sýningardagur á Via Crucis, sýningu listnema úr ME í gallerí Klaustri.
Sumardaginn fyrsta, 22. apríl verða tónleikar kl. 15 með Höllu Steinunni Stefánsdóttur og þá verður einnig opnuð sýning japanska listamannsins Masaki Umetsu í gallerí Klaustri.
Síðustu helgina í apríl verður síðan opið bæði lau. og sun. kl. 13-17. Sumaropnun hefst síðan 1. maí. og verður opið frá kl. 12-17 alla daga í maí.
26. mars 2010
Eitt listaverkanna á sýningunni Via Crucis.
Páskarnir á Skriðuklaustri:
Via Crucis og píslarganga
Að venju verður opið á Skriðuklaustri um páskana og ýmislegt um að vera. Sunnudaginn 28. mars kl. 14 verður opnuð sýning í gallerí Klaustri sem nemendur í módelteikningu á listnámsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum hafa unnið. Sýningin tengist páskahátíðinni og fjallar um krossleiðina, via crucis. Nemendurnir taka fyrir í verkum sínum þá fjórtán staði í píslargöngu Krists sem liggja að krossfestingu og til grafar.
Föstudaginn langa, 2. apríl, efna sóknarprestar á Héraði og Gunnarsstofnun öðru sinni til píslargöngu frá Valþjófstaðarkirkju og út í Skriðuklaustur. Gangan hefst með hugvekju í kirkjunni kl. 11. Síðan verður gengið í Klaustur og áð tvisvar á leiðinni til að lesa upp úr Passíusálmum sr. Hallgríms Péturssonar. Opið verður í hádegisverð hjá Klausturkaffi að lokinni göngu.
Opið verður um hátíðirnar á Skriðuklaustri sem hér segir:
- Pálmasunnudag 28. mars kl. 13-17
Föstudaginn langa kl. 12-17
Laugardaginn 3. apríl kl. 13-17
Annan í páskum kl. 13-17.
Kaffihlaðborð verður hjá Klausturkaffi alla þessa daga og hádegishlaðborð á föstudaginn langa. Lokað er á Skriðuklaustri á skírdag og páskadag.