Fréttir 2009

22. desember 2009

Þorleifur Hauksson við lestur Aðventu í desember 2009.

Jólakveðjur til allra gesta og velunnara Skriðuklausturs

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi senda öllum sem sóttu staðinn heim á árinu innilegar jólakveðjur. Síðasti viðburður ársins var þriðja sunnudag í aðventu en þá las Þorleifur Hauksson Aðventu, hina sígildu skáldsögu Gunnars Gunnarssonar, í skrifstofu skáldsins. Unun var á að hlýða en þeir sem misstu af lestrinum hafa getað hlýtt á Þorleif lesa söguna sem útvarpssögu nú síðustu vikurnar fyrir jólin. Næsti viðburður á Skriðuklaustri verður lomberkvöld fimmtudaginn 7. janúar. Ákveðið var að færa kvöldið á fimmtudag þar sem Fljótsdalshérað mun keppa í Útsvari á föstudagskvöldinu.


9. desember 2009

Arndís Þorvaldsdóttir við lestur í desember 2008.

Aðventa lesin á sunnudaginn

Sunnudaginn 13. desember verður Aðventa lesin í fimmta sinn á þriðja sunnudegi í aðventu á Klaustri. Jafnframt verður sagan lesin í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík þar sem Jón Hjartarson leikari mun lesa og hefja lestur kl. 13. Á Skriðuklaustri mun lesturinn að venju hefjast kl. 14 á skrifstofu skáldsins. Kveikt verður upp í kakalofninum og heitt á könnunni. Lesari að þessu sinni er Þorleifur Hauksson fræðimaður sem einnig les söguna í útvarp fyrir þessi jól. Allir eru velkomnir í Klaustur til að njóta kyrrðarstundar í amstri desembermánaðar. Lesturinn tekur um tvær og hálfa klukkustund en gestir geta komið og farið að vild.


20. nóvember 2009

Rithöfundar, lomber, jólahlaðborð og Grýlugleði

Það er margt framundan á Skriðuklaustri eins og vanalega á þessum tíma. Fyrst ber að geta þess að rithöfundalestin rennir í hlað á fimmtudagskvöldið 26. nóvember kl. 20.30. Veður hamlaði för þeirra í fyrra en nú mæta fimm höfundar og lesa úr nýútkomnum verkum. Þeir eru:

  • Björn Þorláksson með hina bráðsmellnu Heimkomu
  • Gerður Kristný með barnabókina um Prinsessuna á Bessastöðum
  • Hjálmar Jónsson með sjálfævisögu sína Hjartslátt
  • Ingunn Snædal með nýja ljóðabók, komin til að vera, nóttin
  • Sölvi Björn Sigurðsson með skáldsöguna Síðustu dagar móður minnar

Lesið verður upp í stássstofunni og boðið upp á kaffi og smákökur. Aðgangseyrir er kr. 1.000. Hægt verður að kaupa bækur höfundanna á staðnum og falast eftir áritunum.

Bæði föstudags- og laugardagskvöld verða jólahlaðborð hjá Klausturkaffi og er eitthvað af lausum sætum enn á báðum kvöldum. Borðapantanir eru í símam 471-2992 eða 899-8168.

Til tilbreytingar verður lomberkvöldið 27. nóvember því flutt í Hlymsdali á Egilsstöðum. Hefst það að venju kl. 20.00 og vonandi mæta sem flestir.

Sunnudaginn 29. nóvember kl. 14 er svo komið að hinni árlegu Grýlugleði. Þar munu að venju gaulálfar og sagnálfar leika lausum hala en hver veit nema gömlu hjónin láti sjá sig að leita einhvers í svanginn. Þegar eru farin að berast kvæðiskorn um Leppalúða og jólaköttinn frá grunnskólabörnum og verða valin ljóð sungin og flutt á Grýlugleðinni. Að henni lokinni verður jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi.


12. nóvember 2009

Lúðvík Kemp og súkkulaðikökur

Sunnudaginn 15. nóvember kl. 14 mun Hjalti Pálsson fræðimaður úr Skagafirði flytja erindi um hagyrðinginn Lúðvík Kemp sem var austfirskur að ætt en bjó í Skagafirði. Kveðskapur Lúðvíks þótti oft á tíðum ekki prenthæfur á sinni tíð en eftir hann liggur mikið safn lausavísna. Að loknu erindinum verður súkkulaðikökuhlaðborð hjá Klausturkaffi í tilefni Daga myrkurs.


12. nóvember 2009

Aðventa - velheppnuð fjallaferð

Ferð í fótspor Fjalla-Bensa var farið laugardaginn 7. nóvember. Veður var gott og færð með eindæmum góð. Ekki þurfti að leggja á stórjeppa að þessu sinni heldur nægðu óbreyttir jeppar til fararinnar. Að venju var áð fyrst við Péturskirkju austan í Hrauntöglunum og þar sagði Arngrímur Geirsson í Álftagerði frá Benedikt Sigurjónssyni og hvernig eftirleitum var háttað á þessu svæði. Pétur Eggerz leikari leiddi okkur svo inn í sögu Gunnars Gunnarssonar af Fjalla-Bensa. Frá Péturskirkju var farið að stórum hraunhelli sem gangnamenn nýttu stundum og er skammt frá afleggjaranum að Dettifossi. Hann er kallaður Klaustur. Að svo búnu var haldið að Sæluhúsinu við Jökulsá og rifjaðar upp draugasögur og fleira af þeim slóðum. Eftir að hafa snætt nesti var svo brunað inn með Jökulsá og alla leið inn að kofanum Tumba sunnan í Miðfelli þar sem áður var niðurgrafin hola, ein af mörgum sem Bensi nýtti sér í vonskuveðrum förum daga. Ferðinni lauk síðan í Möðrudal þar sem snædd var kjötsúpa og Pétur Eggerz lék lokaatriði sögunnar. En myndirnar tala sínu máli.


19. október 2009

Aðventa - leiksýningar og fjallaferð á Dögum myrkurs

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs tekur við skráningu á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í síma 863-5813. Sætið kostar 9.500 kr. og ef menn koma á eigin bílum er þátttökugjald 2.000 kr. á manninn.

Skráningarfrestur í ferðina hefur verið framlengdur til kl. 16 fimmtudaginn 5. nóv.

 


12. október 2009


Liv Skrudland og Karin Nielsen.

Frábærir tónleikar
Tónleikar þeirra Liv og Karin frá Vesteralen sl. sunnudag var velheppnaðir og var það rómur þeirra sem á hlýddu að þeir hefðu verið hreint út sagt frábærir. Á efnisskránni voru bæði samtímaverk og þjóðlög frá bæði Noregi og Íslandi og fléttuðu þær stöllur þau snilldarlega saman svo úr varð 50 mínútna tónlistarveisla. Inn á milli lásu þær ljóð. Óhætt er að mæla með þessu prógrammi en þær munu halda tónleika bæði á Eskifirði á morgun þriðjudag og Borgarfirði á miðvikudagskvöld. Á föstudaginn yfirgefa þær Austurland en munu ljúka dvöl sinni hérlendis með því að spila á tónleikum á Gljúfrasteini.


5. október 2009


Liv Skrudland og Karin Nielsen.

Í vestur - í austur
Tónfundur Íslands og Noregs sunnudaginn 11. okt.

Sunnudaginn 11. október verða haldnir tónleikar á Skriðuklaustri þar sem söngkonan Liv Skrudland og sellóleikarinn Karin Nielsen flytja norsk og íslensk lög. Listamennirnir koma frá Norður-Noregi og hafa að undanförnu dvalist í gestaíbúðinni Klaustrinu og er dvölin hluti af samstarfi menningarráðanna í Vesterålen og á Austurlandi. Liv Skrudland lærði við Rogaland Musikkonservatorium. Hún er alhliða söngvari en þekkt fyrir túlkun sína á kammertónlist og ljóðatónleika. Karin Nielsen nam sellóleik bæði í Svíþjóð og Noregi og hefur m.a. spilað með Fílharmóníusveitinni í Osló en vinnur nú sem svæðistónlistarmaður í Tromsfylki.
Á Skriðuklaustri hafa þær Liv og Karin æft nýja efniskrá sem byggir á samtímatónlist og þjóðlögum frá báðum löndum. Á tónleikunum munu þær m.a. flytja lög eftir Þorstein Hauksson og Sommerfeldt í bland við þekkt kvæði eins og Sofðu unga ástin mín, Snert hörpu mína og kvæði Olavs H. Hauge. Þær munu flytja sömu efnisskrá á tónleikum á Gljúfrasteini í Mosfellssveit laugardaginn 17. október. Tónleikarnir á Skriðuklaustri hefjast kl. 15 og aðgangur er ókeypis. Opið verður hjá Klausturkaffi bæði fyrir og eftir tónleikana.



Elzbieta á Skriðuklaustri 2007.

24. september 2009

Eitt og annað á döfinni á Klaustri

LOMBER
Annað kvöld, föstudagskvöldið 25. sept. kl. 20 hefst spilamennska vetrarins. Lomberinn lifnar við og verður spilað á þriggja vikna fresti fram að jólum. Endilega takið með ykkur nýliða. Ekki veitir af að fjölga fyrir lomberslaginn við Húnvetninga sem ekki verður blásinn af þennan veturinn.

TÓNLEIKAR Á SUNNUDAGINN
Á sunnudaginn, 27. sept. kl. 15 verða tónleikar í tilefni af Alþjóðlega tónlistardeginum. Þar mun Elzibieta Arsso-Cwalinska sópran syngja við undirleik Árna Ísleifssonar íslensk og erlend lög. Aðgangseyrir er 1.000 kr. en frítt fyrir ellilífeyrisþega og 16 ára og yngri.

SÍÐASTA HELGAROPNUNIN
Komandi helgi er síðasta helgaropnunin, þ.e. opið kl. 12-17 bæði laugardag og sunnudag á Skriðuklaustri. Opið verður hjá Klausturkaffi og þeir sem ekki hafa séð sýningu Þórunnar Eymundar og Hönnu Christel í gallerí Klaustri ættu að drífa sig að líta við. Þá fer að fækka sýningardögum á Ævintýrinu 1939 þar sem bygging Gunnarshúss er sérstaklega tekin fyrir.

OPIÐ Á SUNNUDÖGUM Í OKTÓBER

Ákveðið hefur verið að hafa opið kl. 13-17 fyrstu þrjá sunnudagana í október og verða ofangreindar því ekki teknar niður fyrr en eftir 18. október.



Innsetningin "þegar ég hef svæft sjálfan mig" í gallerí Klaustri.

14. september 2009

Haustið komið og helgaropnun til loka september

Hinni daglegu opnun lauk 13. september en frá 1. maí hefur fjöldi ferðamanna og heimamanna lagt leið sína í Skriðuklaustur. Opið verður næstu tvær helgar kl. 12-17 nema hvað laugardaginn 19. sept. verður opnað eftir Melarétt eða um kl. 14. Klausturkaffi verður opið á sama tíma. Þeir sem enn eiga eftir að skoða sýninguna um Ævintýrið 1939, þ.e. um byggingu hússins hafa því enn tækifæri. Sömuleiðis verður sýning Þórunnar Eymundardóttur og Hönnu Christel Sigurkarlsdóttur opin til septemberloka í gallerí Klaustri. Sunnudaginn 27. september kl. 15 verða síðan tónleikar á Skriðuklaustri á Degi tónlistarinnar. Nánar um það síðar.


24. ágúst 2009

Fjör á Fljótsdalsdegi

Hinn árlegi Fljótsdalsdagur Ormsteitis var haldinn sunnudaginn 23. ágúst. Hann tókst með ágætum þó að veðurguðirnir væru sparsamir á sólina. Nokkrir gengu niður Tröllkonustíginn og kátir krakkar reyndu að krækja í silung í Bessastaðaánni. Eftir grill í Víðivallaskógi var síðan dagskrá á Skriðuklaustri þar sem LAY LOW hélt útitónleika á aðalstéttinni sem um 300 manns hlýddu á. Að þeim loknum tóku við hefðbundnir Þristarleikar með rababarakasti, pokahlaupi og fjárdrætti. Einnig var keppt um bestu sulturnar og lengsta rababaralegginn. Deginum lauk síðan með guðsþjónustu á rústum hins forna Skriðuklausturs. En myndirnar tala sínu máli.







20. ágúst 2009

Hinn árlegi Fljótsdalsdagur Ormsteitis verður sunnudaginn 23. ágúst. Hann hefst með gönguferð niður Tröllkonustíginn og veiðikeppni í Bessastaðaá. Mæting í hvoru tveggja er kl. 10, í veiðikeppnina við Melarétt en í gönguferðina við Végarð. Í hádeginu er boðið upp á pylsugrill í veislurjóðri Víðivallaskógar þar sem úrslit í veiðikeppni verða tilkynnt. Hádegisverðarhlaðborð er að venju hjá Klausturkaffi. Klukkan 14.00 hefst dagskrá á Skriðuklaustri með stórtónleikum LAY LOW. Að þeim loknum taka við hinir óborganlegu Þristarleikar. Á þeim verður að venju keppt í pokahlaupi, fjárdrætti og rababarakasti. Sultukeppnin verður á sínum stað og keppt í tveimur flokkum, rababarasultum og öðrum sultum. Þá verður keppt um lengsta rababaralegginn. Gert er ráð fyrir að Þristarleikum verði lokið kl. 16.30 og þá verður guðsþjónusta við rústir klaustursins forna. Sr. Davíð Tencer, prestur kaþólsku kirkjunnar á Kollaleiru, og sr. Cecil Haraldsson sóknarprestur á Seyðisfirði þjóna. Ormsteiti mun ljúka með þessari athöfn við klausturrústirnar.

Frítt er á alla viðburði í Fljótsdal en þeir sem standa að deginum eru Fljótsdalshreppur, Gunnarsstofnun, Klausturkaffi og Þristurinn ásamt skógarbændum á Víðivöllum, landeigendum að Bessastaðaá og fleirum.

Fjör á sunnudaginn á Fljótsdalsdegi
- tónleikar með LAY LOW

 


19. júlí 2009


Frá fornleifauppgreftri.

Fræðandi sýningar, list, leiðsögn og fornleifar

Margt er um manninn alla daga á Skriðuklaustri um þessar mundir. Gestir koma hvaðanæva að úr heiminum þó að mest sé um Íslendinga. Enda margt að skoða og fræðast um. Fornleifafræðingar eru að störfum í klausturrústum neðan Gunnarshúss og er leiðsögn um fornleifasvæðið eftir hádegi alla daga. Í Gunnarshúsi stendur í allt sumar stór sýning um ævintýrið 1939 þegar húsið var byggt á aðeins nokkrum mánuðum. Á sýningunni getur m.a. að líta einstök kvikmyndabrot af Gunnari á Skriðuklaustri sumarið 1939 sem uppgötvuðust í fyrra á Kvikmyndasafni Íslands. Í gallerí Klaustri stendur yfir sýning Söndru Mjallar Jónsdóttur, Aðlögun, og um 10. ágúst tekur við sýning á verkum Piotr Nathan. Að sjálfsögðu er Klausturkaffi síðan opið alla daga kl. 10-12 með hádegis- og kaffihlaðborð og hægt að sitja og sleikja sólina á suðurstéttinni þegar þannig viðrar og taka léttan kubbleik eða krokkett.


30. júní 2009


Stjórn Skriðuklaustursrannsókna skoðar fornleifauppgröftinn.

Fornleifar, ljósmyndir, sýning um ævintýrið 1939 og margt fleira

Skriðuklaustur iðar af lífi þessa dagana. Fornleifafræðingar eru að störfum í klausturrústum neðan Gunnarshúss. Að venju er leiðsögn um fornleifasvæðið og er hún nú á klukkustundarfresti eftir hádegi alla daga. Í Gunnarshúsi stendur í allt sumar stór sýning um ævintýrið 1939 þegar húsið var byggt. Á sýningunni getur m.a. að líta einstök kvikmyndabrot af Gunnari á Skriðuklaustri sumarið 1939 sem uppgötvuðust í fyrra á Kvikmyndasafni Íslands. Í gallerí Klaustri hefst um næstu helgi sýning Söndru Mjallar Jónsdóttur sem er útskrifuð í ljósmyndun frá LHÍ og Bretlandi. Að sjálfsögðu er Klausturkaffi síðan opið alla daga kl. 10-12 með hádegis- og kaffihlaðborð og hægt að sitja og sleikja sólina á suðurstéttinni.


30. júní 2009

Staðarhaldari lætur af störfum

Halldóra Tómasdóttir sem verið hefur staðarhaldari á Skriðuklaustri síðustu þrjú ár lætur af störfum nú um mánaðamótin. Hún hefur haft umsjón með gestaíbúðinni Klaustrinu og innanhússtarfsemi á Skriðuklaustri ásamt fleiru. Halldóru eru þökkuð góð störf síðustu árin en hún hyggur á frekara nám með haustinu. Þeim sem hafa verið í sambandi við staðarhaldara vegna Klaustursins eða annarra mála er bent á að snúa sér til forstöðumanns, Skúla Björns Gunnarsonar, en hann hefur netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..


30. maí 2009

Sumarblómin komin og ný sýning í gallerí Klaustri

Í dag hefst sumartíminn á Klaustri og héðan í frá verður opið kl. 10-18 alla daga fram á haust. Sumarblómin eru komin á sinn stað allt í kringum Gunnarshús og fyrsti sláttur búinn. Klausturkaffi býður að sjálfsögðu upp á hádegis- og kaffihlaðborð alla daga með áherslu á austfirskar krásir og kökur og brauð bökuð á staðnum.

Á morgun sunnudag opnar kanadíska listakonan, rithöfundurinn og mannfræðingurinn Rae Bridgman sýningu í gallerí Klaustri. Hún er þekktust fyrir fantasíubækur fyrir unglinga og myndskreytir þær einnig. Hægt er að skoða nokkrar af myndum hennar á neðangreindri síðu.

http://www.raebridgman.ca/gallery/index.html


19. maí 2009


Sigurjón Björnsson prófessor emeritus ræddi um Brimhendu.

Velheppnað málþing í tilefni stóra hundraðsins

Málþingið sem haldið var í gær í Þjóðarbókhlöðu í samstarfi við Bókmenntafræðistofnun HÍ og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn tókst með ágætum. Fyrirlesararnir þrír fluttu athyglisverð erindi um verk Gunnars og voru það fyrst og fremst Brimhenda, Vikivaki og Aðventa sem tekin voru til umfjöllunar þó að fleiri bæri á góma. Í lokin stýrði Jón Yngvi Jóhannsson síðan skemmtilegum pallborðsumræðum sem salurinn tók virkan þátt í með áhugaverðum spurningum og hugleiðingum.


Jón Karl Helgason talaði um Vikivaka og Sveinn Yngvi Egilsson um Aðventu.


Jón Yngvi og Sigurjón Björnsson í hrókasamræðum í pallborðinu.


18. maí 2009

120 ár liðin frá fæðingu Gunnars skálds

Í dag eru liðin 120 ár frá því Gunnar Gunnarsson fæddist á Valþjófsstað í Fljótsdal. Af því tilefni verður málþing um skáldið í Þjóðarbókhlöðu í dag kl. 17 (sjá nánar hér að neðan) og er það opið öllum meðan húsrúm leyfir. Þá hefur RUV opnað fyrir niðurhal inni á hlaðvarpinu á frábærum lestri Gunnars frá 1956 á skáldsögunni Svartfugli í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar.


14. maí 2009

Af einkasyni hugumstórra fjalla
- málþing á mánudaginn í Þjóðarbókhlöðu í tilefni þess að 120 ár eru liðin frá fæðingu Gunnars skálds

Stofnunar Gunnars Gunnarssonar, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn bjóða til málþings í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðu mánudaginn 18. maí kl. 17 í tilefni þess að þá verða 120 ár liðin frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar skálds.

Dagskrá:

  • Á slóðum Brimhendu - Sigurjón Björnsson prófessor emeritus
  • Dómsdagsmynd Gunnars Gunnarssonar - bakþankar um Vikivaka - Jón Karl Helgason dósent við HÍ
  • Náttúran í Aðventu og nokkrum sögum Gunnars Gunnarssonar - Sveinn Yngvi Egilsson prófessor við HÍ.
  • Pallborðsumræður með fyrirlesurum undir stjórn Jóns Yngva Jóhannssonar bókmenntafræðings.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.


5. maí 2009


Frá opnun sýningarinnar 1. maí

ÆVINTÝRIÐ 1939
- opið alla daga

Föstudaginn 1. maí var opnuð sýning á Skriðuklaustri í tilefni 70 ára frá byggingu hins einstæða húss Gunnar sem kallast Ævintýrið 1939. Á sýningunni kennir ýmissa grasa og þar er er reynt að varpa ljósi á hversu gríðarlega stór framkvæmd þetta var á sínum tíma þó að aðeins hluti allra þeirra bygginga sem Gunnar ætlaði sér að byggja hafi risið. Tekið hefur verið saman yfirlit úr vinnudagbók yfirsmiðsins frá árinu 1939 og þar koma 65 nöfn við sögu sem skiluðu um 32.000 vinnustundum á sjö mánuðum.

Sýningin er opin alla daga kl. 12-17 og frá og með 1. júní verður opið kl. 10-18.


30. apríl 2009


Teikning Fritz Högers af herragarðinum Skriðuklaustri.

ÆVINTÝRIÐ 1939
- 70 ár frá byggingu Gunnarshúss á Skriðuklaustri

Föstudaginn 1. maí verður opnuð sýning á Skriðuklaustri í tilefni 70 ára frá byggingu hins einstæða húss Gunnars Gunnarssonar skálds. Á sýningunni er í máli og myndum sagt frá þessu ótrúlega ævintýri 1939 þar sem hátt í hundrað manns unnu sex daga vikunnar frá vori og fram að jólum við að reisa stórhýsið.

Rannsóknir fræðimanna við undirbúning sýningarinnar hafa leitt ýmislegt nýtt í ljós. Meðal annars er sýnd teikning sem Gunnar og Jóhann Fr. Kristjánsson gerðu að íbúðarhúsi áður en góðvinur Gunnars, þýski arkitektinn Fritz Höger, bauðst til að teikna herragarðinn. Þá er á sýningunni fjallað um sögusögnina um að sami arkitekt sé að húsinu og Arnarhreiðrinu.

Vegna sýningarinnar er búið að vinna líkan sem sýnir herragarðinn í heild sinni eins og hann átti að verða með öllum útihúsum. Teikningar eru til af stóru heildarmyndinni og er grunnflötur þeirra bygginga sem aldrei risu yfir 2000 fermetrar.

ÆVINTÝRIÐ 1939 er aðalsumarsýning Gunnarsstofnunar og stendur fram á haust. Með opnun hennar hefst sumaropnun á Skriðuklaustri. Frá og með 1. maí er opið á Skriðuklaustri alla daga kl. 12-17 og 1. júní lengist opnunartíminn í kl. 10-18.


20. apríl 2009

Þjóðlegir tónar á sumardaginn fyrsta

Marta Guðrún Halldórsdóttir sópran og Örn Magnússon píanóleikari verða með þjóðlega tónlistarstund á Klaustri á sumardaginn fyrsta kl. 15.00.

Örn og Marta hafa starfað saman um margra ára skeið. Þau hafa lagt rækt við íslenska tónlist, bæði nýja og gamla og þá ekki síst fengist við þjóðlög í ýmsum búningi. Þau hafa gefið út geisladisk með þjóðlagasafni Engel Lund og nú eru væntanlegir tveir nýir þjóðlagadiskar, annar með útsetningum Hildigunnar Rúnarsdóttur en hinn geymir lög sem þau hafa útsett sjálf og flutt með fjölskylduhljómsveit sem ber heitið Spilmenn Ríkínís. Þar nota þau gömul íslensk hljóðfæri sem vitað er að til voru hér á landi til forna s.s. langspil, simfón og gýju. Á tónleikunum á sumardaginn fyrsta munu þau gefa áheyrendum sýnishorn af hvoru tveggja og flytja tónlist úr þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar, úr safni Engel Lund og tónlist sem varðveitt er í tónlistarhandritunum Melodiu og Hymnodiu við undirleik hinna ýmsustu hljóðfæra, allt frá píanói til gemsuhorns.

Tónleikarnir eru í samstarfi við Félag íslenskra tónlistarmanna og hluti af landsbyggðartónleikum 2009. Aðgangseyrir er kr. 1.000 fyrir fullorðna en frítt fyrir 16 ára og yngri.

Opið er á Skriðuklaustri kl. 14-17 á sumardaginn fyrsta og einnig laugard. og sunnud. 25-26. apríl.


16. apríl 2009

Skóflustunga tekin að gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tók skóflustungu að gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í dag 16. apríl. Ljúka á byggingu hennar fyrir 15. maí 2010. Í gestastofunni verður sett upp sýning um þjóðgarðinn og þar verður meginstarfsstöð þjóðgarðsins á austursvæði hans. Húsið verður hið fyrsta hér á landi sem byggt verður samkvæmt alþjóðlegum vottuðum vistvænum stöðlum en það er hannað af Arkís (www.arkis.is).


6. apríl 2009


Sr. Sigurjón á Kirkjubæ með fermingarbörn á Eiðum 1955. Mynd frá Ljósmyndasafni Austurlands.

Píslarganga, fermingasýning og páskaopnun

Laugardaginn 4. apríl kl. 14 var opnuð sýning um fermingar á miðri síðustu öld á Skriðuklaustri. Sýningin er hluti af verkefninu Sagnalist, sem unnið er í samstarfi Gunnarsstofnunar og Þórbergsseturs með styrk frá Menningarráði Austurlands, og felst í að safna frásögnum eldra fólks. Á sýningunni á Klaustri er brugðið upp nokkrum minningarbrotum, sýndar gamlar fermingarmyndir, gjafir og fatnaður frá einstaklingum sem fermdust um miðja 20. öld. Sýningin verður opin í apríl.

Á föstudaginn langa verður gengin píslarganga frá Valþjófsstað í Skriðuklaustur í samstarfi við prestana á Héraði. Gangan hefst með hugvekju í Valþjófsstaðakirkju kl. 11. Síðan verður gengið í Skriðuklaustur og áð tvisvar á leiðinni til að lesa upp úr Passíusálmum sr. Hallgríms. Klausturkaffi verður með opið í hádegisverð að lokinni göngunni.

Opnunartími á Skriðuklaustri næstu vikur:

  • Föstudagurinn langi 10. apríl - kl. 12-17
  • Laugardagur 11. apríl - kl. 14-17
  • Annar í páskum 13. apríl - kl. 14-17
  • Laugardagur 18. apríl - kl. 14-17
  • Sunnudagur 19. apríl - kl. 14-17

Aðgangseyrir 500 kr. Frítt fyrir 16 ára og yngri og 50% afsláttur fyrir eldri borgara.

Borðin svigna undan kræsingum á kaffihlaðborði Klausturkaffis á opnunartíma.


Wilfried Agricola de Cologne, stjórnandi CologneOFF.

17. mars 2009

Hreindýraland á sunnudaginn
- lomber á föstudag og leshringur á þriðjudag

Lomberkvöld verður nk. föstudagskvöld kl. 20. Rætt verður um lomberslag við Húnvetninga.

Skriðuklaustur tekur að venju þátt í 700IS Hreindýralandi. Að þessu sinni verður sýnt úrval mynda af CologneOFF IV hátíðinni. Um er að ræða stuttmyndir frá ýmsum löndum. Sjá nánar hér. eða á vefnum www.700.is. Sýningar verða frá kl. 14-18 bæði sunnud. 22. mars og laugard. 28. mars. Klausturkaffi verður með kaffihlaðborð báða daga. Þá verður einnig opið kl. 14-17 sunnud. 29. mars.

Í tilefni Hreindýralandsins verður Klausturkaffi með hreindýrabrunch sunnudaginn 22. mars kl. 12-14 þar sem áherslan verður lögð á hreindýrakjöt. Verð í brunch er kr. 2500 en hálft fyrir 6-12 ára og yngri en 6 ára fá frítt.

Leshringur verður á þriðjudagskvöld 24. mars kl 20. Þá verður lokið við Fjallkirkjuna og síðasta bindi hennar, Hugleikur, tekið til umræðu.



Guðjón Daníelsson og Björn Magni Björnsson glaðbeittir við spilaborðið í fyrra.

25. febrúar 2009

Lomberdagur á laugardag
- opið allan daginn hjá Klausturkaffi

Hinn árlegi lomberdagur verður nk. laugardag, 28. febrúar. Að venju eru byrjendur boðnir sérstaklega velkomnir og munu fá leiðsögn um lomber og lítið kver. Mælt er með því að þeir mæti kl. 13 en spilamennskan mun hefjast kl. 13.30. Spilað verður fram á rauða nótt með viðeigandi kaffi- og matarhléum. Spilamenn geta bæst inn hvenær sem er. Þátttökugjaldið ræðst af því hvað menn eru lengi og þurfa mikla næringu:

Basti (síðdegiskaffi) kr. 1.500 (1.350 kr. fyrir Klausturreglu)
Manilía (kvöldverður) kr. 3.900 (3.500 kr. fyrir Klausturreglu)
Spadda (síðdegiskaffi og kvöldverður) kr. 4.900 (4.400 kr. fyrir Klausturreglu)

Opnað verður á Klaustri kl. 12 og verður Klausturkaffi líka með hádegisverð fyrir gesti og gangandi. Veitingastofan verður opin allan daginn ef að menn vilja kíkja í hádegi, kaffi eða kvöldverð og sjá fjöruga spilamennsku.


17. febrúar 2009

Erindi um lýðræði og kræsingar á konudegi

Konudaginn 22. febrúar verður opið á Klaustri frá kl. 12-17 og verður Klausturkaffi með hlaðborð í tilefni dagsins, bæði hádegishlaðborð og kaffihlaðborð með bolludagsívafi. Vilhjálmur Árnason heimspekingur mun síðan ræða um lýðræði í konudagsspjallinu sem hefst kl. 15.00.

Þann 24. febrúar kl. 20 verður síðan haldið áfram með leshring um Fjallkirkjuna og er það Óreyndur ferðalangur sem nú er tekinn fyrir. Á síðasta degi mánaðarins, laugardaginn 28. febrúar verður síðan hinn árlegi lomberdagur þar sem vanir og óvanir lomberspilarar geta notið þess að spila þetta fornfræga spil frá hádegi og fram á nótt. Klausturkaffi mun hafa opið allan lomberdaginn fyrir þá sem vilja líta við og bjóða upp á hádegis, kaffi og kvöldverðarhlaðborð.


5. febrúar 2009

Janúardvalanum lokið og margt um að vera í febrúar

Upp er runnið nýtt ár og ný ríkisstjórn sest að völdum. Á Skriðuklaustri gengur þó lífið sinn vanagang og nú er janúardvalanum lokið. Á döfinni í febrúar er eitt og annað. Lomberinn sem átti að vera föstudagskvöldið 13. febrúar er fluttur á fimmtudaginn 12. febrúar kl. 20 þar sem Fljótsdalshérað keppir í Útsvari á föstudagskvöldið við Akureyri. Laugardaginn 14. febrúar verður Rannsóknaþing Austurlands 2009 haldið að Skriðuklaustri og stendur frá kl. 11-17. Dagskrá þess er hægt að sjá á vef Þekkingarnets Austurlands en meðal fyrirlesara verða dr. Steinunn Kristjánsdóttir, sem fjallar um fornleifarannsóknina á Klaustri, og Jón Yngvi Jóhannsson, sem segir frá rannsóknum sýnum á Gunnari Gunnarssyni. Á Rannsóknaþinginu verður ennfremur fjallað um grundvöll fyrir stofnun akademíu á Austurlandi.

Konudaginn 22. febrúar verður opið á Klaustri frá kl. 14-17 og verður Klausturkaffi með hlaðborð í tilefni dagsins. Þann 24. febrúar kl. 20-22 verður síðan haldið áfram með leshring um Fjallkirkjuna. Á síðasta degi mánaðarins, laugardaginn 28. febrúar verður síðan hinn árlegi lomberdagur þar sem vanir og óvanir lomberspilarar geta notið þess að spila þetta fornfræga spil frá hádegi og fram á nótt.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur