Grýlugleði og Aðventulestur
Aðventan hefst nk. sunnudag með tilheyrandi viðburðum á Skriðuklaustri. Þá verður Grýlugleði kl. 14 þar sem sagt verður frá og sungið um Grýlu og hyski hennar. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Klausturkaffi býður upp á létt jólahlaðborð á undan kl. 12 og svo jólakökuhlaðborð síðdegis.
Viku síðar, sunnudaginn 8. des. verður Aðventa Gunnars lesin í stássstofunni. Að þessu sinni mun Benedikt Karl Gröndal leikari lesa söguna um nafna sinn og hefst lesturinn kl. 13.30. Á sama tíma lesa Gunnar Björn Gunnarsson, afkomandi skáldsins söguna hjá Rithöfundasambandi Íslands að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Þess má einnig geta að Ferðafélag Akureyrar stendur fyrir upplestri á Aðventu í húsnæði sínu að Strandgötu 23 á Akureyri nk. sunnudag 1. des. kl. 14.
Saga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Benedikts og fylgdarliðs hans á öræfum uppi hefur fylgt þjóðinni í 80 ár. Aðventa er bók sem kemur inn á metsölulistana ár hvert í desember og er gefin út á nýjum tungumálum enn þann dag í dag. Nú nýverið kom bókin út í Frakklandi hjá Zulma forlaginu sem gefur m.a. út Auði Övu, Andra Snæ og Einar Má. Þessi bók Gunnars er því til í dag á um 20 tungumálum og selst enn vel en hún kom fyrst út árið 1936. Þeir sem hafa áhuga á að kaupa bókina á erlendum málum geta haft samband við okkur á Skriðuklaustri.