Afmælismálþing í Norræna húsinu
Sunnudaginn 18. maí nk. verða liðin 125 ár frá fæðingu rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar. Í tilefni þess efnir Gunnarsstofnun í samvinnu við Norræna húsið til afmælismálþings í Norræna húsinu frá kl. 13.30 til 17 þann dag. Haldin verða sex áhugaverð erindi um Gunnar og verk hans og Sigrún Hjálmtýsdóttir mun flytja verk eftir Áskel Másson, innblásið af Sonnettusveig Gunnars. Málþingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir en yfirskrift þess er „Skáld á ekki samleið með neinum...“ og er sótt í grein eftir Gunnar.
Opnunarerindi málþingsins fjallar um samskipti Gunnars við Norðmenn og viðtökur á verkum hans í Noregi. Það er Oskar Vistdal, norskur rithöfundur, fræðimaður og þýðandi sem kynnir rannsóknir sínar, en hann hefur nýlokið við að skrifa bók um Gunnar og Noreg.
Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur, sem skrifaði ævisögu Gunnars fyrir fáum árum, mun fjalla um skandivisma Gunnars í erindi sem hann kallar Bandaríki Norðurlanda – Draumur Gunnars Gunnarssonar um nýtt heimaland. Áskell Másson tónskáld flytur erindið Vorsöngur – til kviknandi lífs og segir frá glímu sinni við að semja tónverkið Söngvar um vorið sem er innblásið af Sonnettusveig Gunnars. Sigrún Hjálmtýsdóttir mun flytja fyrsta hluta verksins sem kallast Sveigur. Róbert Haraldsson, prófessor í heimspeki, verður með hugleiðingu um síðasta skáldverk Gunnars, Brimhendu og kallar erindi sitt Tyrfin bók túlkuð. Kristján Jóhann Jónsson, dr. phil og dósent í íslensku, talar um Tvö heimsborgara í sínu erindi og að lokum mun Silja Aðalsteinsdóttir, ritstjóri og bókmenntafræðingur, fjalla um barnasögur Gunnars sem komu út um miðja síðustu öld og voru m.a. myndskreyttar af sama teiknara í Bretlandi og sögur Enid Blyton. [Hér má nálgast dagskrána í heild sinni]
- Created on .