Klausturkaffi heitir veitingastaður á neðri hæð Gunnarshúss á Skriðuklaustri. Þar er íslensk matargerð í hávegum höfð og lögð áhersla á að nota hráefni svæðisins, s.s. lambakjöt, hreindýrakjöt, hrútaber og lerkisveppi. Allar kökur og allt brauð er heimabakað.
Á sumrin er boðið upp á hádegishlaðborð (kl. 12-14) og kaffihlaðborð (kl. 15-17) alla daga. Opið er á sama tíma og Gunnarshús er opið en utan opnunartíma árið um kring geta hópar pantað fjölbreyttar veitingar, t.d. hádegisverði, kaffiveitingar, smárétti og kvöldverði. (Sjá matseðla).
Klausturkaffi framleiðir og selur matarminjagripi eins og Klausturfíflahunang, hvannarsultu, hrútaberjahlaup og hundasúrupestó. ( Sjá vörur).
Gamla borðstofan í Gunnarshúsi og sólstofan undir svölunum taka um 50 manns í sæti en á góðviðrisdögum er hægt að setjast út á suðurstétt og sleikja sólskinið með heimagerðum ís.