Þú ert hér: Home Fornleifar Rannsóknin Merkir munir
  • Increase font size
  • Default font size
  • Decrease font size
Leit

Skriðuklaustur

Icelandic(IS)Deutsch (DE-CH-AT)French (Fr)English (United Kingdom)

Merkir munir

Prenta út

Reiknipeningur

Reikniborð að franskri fyrirmynd.Franskur reiknipeningur er meðal þess sem fundist hefur við fornleifauppgröftinn. Slíkir peningar voru notaðir sem merki á línum til útreiknings og höfðu sjálfir ekkert sérstakt verðgildi. Línurnar voru dregnar á dúk eða fjöl en einnig voru til reikniborð með inngreiptum línum. Peningurinn sem fannst á Skriðuklaustri er skreyttur sverðliljum, merki frönsku konungsfjölskyldunnar og Möltukrossi, sem tengist meðal annars musterisriddurum og ýmsum miðaldareglum í Evrópu. Þekkt er að franskir konungar létu árlega slá reiknipeninga handa embættismönnum sínum og þetta er einn slíkur, trúlega frá síðari hluta 15. aldar. Hvernig hann er kominn til Íslands og hvort hann hefur verið notaður við útreikninga á Skriðuklaustri verður ekki sagt til um með vissu en Stefán biskup Jónsson var lærður frá Frakklandi og gæti hafa komið með peninginn

Reiknimyntir voru m.a. notaðar til þess að reikna út tíundagreiðslur (mynd: Jónas Hallgrímsson). Reiknimynt, skreytt frönskum sverðliljum, fannst nyrst í byggingu Skriðuklausturs (mynd: Jónas Hallgrímsson).

Heilög Barbara

Líkneski af heilagri Barböru. Graham Langford forvörður annaðist endurgerð þess (mynd: Jónas Hallgrímsson).Í rústum kirkjunnar fannst líkneski af heilagri Barböru, en það var framleitt í Utrecht í Hollandi á 15. öld (Þóra Kristjánsdóttir, 2008, bls. 148-149). Það var brotið þegar það fannst en sambærilegt líkneski, sem aðeins eru til varðveitt erlendis, eru um 35 cm á hæð.
Barbara stendur þar á skreyttum stalli með bók í annarri hendi en turn í hinni. Líkneskið var gert úr leir og greina má fingraför á innanverðum brotunum eftir þann sem mótaði það. Heilög Barbara er venjulega til verndar gegn hruni, jarðhræringum, eldi og hita en á tímum mikilla faraldra í Evrópu á 15. öld breyttist hlutverk hennar í að vera einnig til verndar gegn sótthita. Heilög Barbara tilheyrði hópi þrettán annarra dýrlinga sem allir höfðu það hlutverk að vera verndandi gegn þeim farsóttum sem geisuðu á þessum tíma.

Áhöld til lækninga

Við uppgröftinn hafa fundist áhöld til lækninga, auk þess sem frjókornagreiningar sýna fram á að þar hafi verið ræktaðar lækningajurtir, samhliða annarri garðrækt.
Læknisáhöldin eru einkum bíldar, skurðarhnífar og prjónar sem notaðir voru til að loka sárum og skurðum. Einnig lyfjabaukur úr leir og lyfjaglös úr gleri.

 Bíldur Steinn Lyfjaglas

Afþreying

Taflmaður, kotra og teningar frá Skriðuklaustri (mynd: Jónas Hallgrímsson).Taflmaður fannst í úrgangsleifum í innganginum við hlið matsalarins. Elstu heimildir um skáklistina eru frá 6.öld e. Kr. og talið er að kirkjunnar menn hafi flutt nútímaskák hingað til lands á fyrstu öldum kristni. Erlendis finnast taflmenn oft í klausturrústum.
Eins hafa við uppgröftinn fundist tveir teningar og ein kotra. Hvort tveggja hefur verið þekkt jafn lengi og skákin.

 Gullhringur

Gullhringur (mynd: Jónas Hallgrímsson)Gullhringur fannst í gröf við kór kirkjunnar á Skriðuklaustri. Óvíst er frá hvaða tímabili hann er, nema að því leyti að ljóst er að um miðaldagerð er að ræða og erlenda smíð. 

Liljulauf

SverðliljulaufLiljulaufið fannst í útjaðri kirkjugarðsins, við útvegg þess herbergis sem nefnt hefur verið scriptorium. Á laufinu er festing og er hvoru tveggja úr járni.
Við fornleifarannsókn sem fram fór á 6. áratug síðustu aldar á kirkjum Skálholtsstaðar fundust nokkur liljulauf, og liljulauf úr blýi fannst einnig á kistuloki við uppgröft á klausturrústunum í Viðey árið 1988. Slík lauf voru algeng sem skraut á ýmsum kirkjumunum, s.s. ljósahöldum, kertagrindum, sem og koffortum eða líkkistum, út miðaldir og jafnvel lengur. 

Hnífskaft

Skreytt hnífsskaft út látúni.Einn þeirra hnífa sem fannst [2009] er með skreyttu skafti úr látúni. Fannst hann í sjúkrasal
klaustursins. Skreytingin sýnir Maríu mey en klaustrið var helgað henni.


 


    

 

Upplýsingar

  • Opið

  • Hvar?

  • Verð

Júní-ágúst: Opið daglega kl. 10-18

Maí og sept: Opið daglega kl. 11-17

Apríl: Opið daglega kl. 12-16

1.-11. október: Opið daglega kl. 12-16

Nóv. - mars er opnunartími óreglulegur. Leitið upplýsinga.

Skriðuklaustur er í Fljótsdal fyrir botni Lagarfljóts. Kort

39 km frá Egilsstöðum

11 km frá Hallormsstað

5 km frá Hengifossi.

Á Skriðuklaustri er einnig Snæfellsstofa Vatnajökulsþjóðgarðs.

Fullorðnir (safn & leiðsögn) 1100 kr.
Börn 16 ára og yngri í fylgd með fullorðnum 0 kr.
Námsmenn 750 kr.
Eldri borgarar/Öryrkjar 550 kr.
Hópar (20+ manns) 900 kr.
Leiðsögn fornleifasvæði hópar (10>)
Fullorðnir 600 kr.
Börn 16 ára og yngri í fylgd með fullorðnum 0 kr.

 

 

Quotes

...og blóðborið lífið
endurfæðist æ ofan í æ,
sprettur ungt og eilífferskt
upp úr berri klöppinni
- á hverju einasta vori.

Svartfugl 1929


Á döfinni

Engir viðburðir á næstunni