Ítarefni

Gunnar Gunnarsson var tilnefndur til Nóbelsverðlaunanna 1918, 1921, 1922 og 1955. Næst því að hljóta hin eftirsóttu verðlaun komst hann 1955. Nóbelsnefndin (skipuð aðalritara akademíunnar og tveimur öðrum meðlimum) mælti þá með sem fyrsta valkosti að verðlaununum yrði deilt milli íslensku höfundanna Gunnars Gunnarssonar og Halldórs Laxness.

Tilnefningar til Nóbelsverðlauna

Nóbelsverðlaunin

Í meirihluta tilfella fram til þess höfðu tillögur nefndarinnar fengið brautargengi hjá akademíunni, sem skipuð er átján manns, enda um að ræða vel ígrundaðar tillögur, eins konar málamiðlanir byggðar á þeim sjónarmiðum sem akademíumeðlimir setja fram í umræðum mánuðina á undan. Það er hins vegar ekki einhlítt að tillögur nefndarinnar nái fram að ganga. Annar valkostur nefndarinnar 1955 var að hinn belgíski Baie hlyti verðlaunin eða spænski höfundurinn Jiménez. Síðan skilaði þriðji nefndarmaðurinn séráliti um að Halldór Laxness ætti að fá þau einn. Eftir miklar umræður og atkvæðagreiðslur varð sú tillaga ofan á hjá akademíunni.

Gunnar og Þýskaland

Eitt stærsta markaðssvæði fyrir evrópska rithöfunda á fyrri hluta 20. aldar var hinn þýskumælandi hluti Evrópu. Þar sá Gunnar tækifæri og strax 1913 var hann kominn með þýskan þýðanda að verkum sínum.

Sögur eftir hann fóru að birtast í þýskum blöðum og tímaritum upp úr 1914. Regluleg útgáfa á bókum hans í Þýskalandi hófst hins vegar ekki fyrr en 1927 og öðlaðist hann fljótlega miklar vinsældir.

Þegar leið á 4. áratuginn var Gunnar einn þeirra norrænu höfunda sem nýir valdhafar þriðja ríkisins sýndu velþóknun á og hömpuðu. Á vegum hins rótgróna norræna menningarfélags, Die Nordische Gesellschaft, sem nasistar lögðu undir sig 1933 var Gunnari boðið í margar fyrirlestraferðir og bækur hans seldust í stórum upplögum. Gunnar var gerður heiðursdoktor við háskólann í Heidelberg 1936 og hlaut Heinrich Steffens verðlaunin 1937. Síðustu ferð sína til Þýskalands á vegum norræna félagsins fór Gunnar fyrri hluta árs 1940. Ferðaðist hann þá alla leið frá Skriðuklaustri og las upp í 40 borgum. Við lok ferðarinnar hitti hann Hitler og er eini Íslendingurinn sem vitað er að hafi hitt hann. Gunnar kom ekki til Þýskalands aftur fyrr en eftir styrjöldina.

Skandinavismi

Gunnar Gunnarsson var einarður fylgismaður þess að Norðurlöndin sameinuðust í eitt lýðræðisríki á millistríðsárunum. Þessi hugsjón átti rætur að rekja til skandinavisma 19. aldar og var helst að finna meðal stúdenta á Norðurlöndum á fyrri hluta 20. aldar.

Gunnar fór víða og talaði fyrir þessu, sérstaklega á samkomum hjá stúdentafélögum á þriðja áratugnum. Marga fyrirlestrana er að finna í bókinni Det Nordiske Rige sem hann gaf út 1928. Gunnar var þess fullviss á þessum tíma að til uppgjörs myndi koma milli gömlu stórveldanna í Evrópu fyrr en seinna. Hann taldi að sameinuð Norðurlönd yrðu betur í stakk búinn að standa gegn ásælni stórveldanna í þeim átökum heldur en hvert í sínu lagi.

Gunnar fann lítinn hljómgrunn fyrir þessari hugsjón sinni meðal valdamanna en stúdentafélög í Noregi, Svíþjóð og Danmörku kepptust við að fá hann með fyrirlestra.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur