Gunnarshús

Gunnarshús á Skriðuklaustri var byggt árið 1939 af rithöfundinum Gunnari Gunnarssyni (1889-1975). Vinur Gunnars, þýski arkitektinn Fritz Höger, teiknaði húsið ásamt öðrum fyrirhuguðum byggingum herragarðsins. Þær byggingar, sem voru fyrst og fremst útihús, risu aldrei. Húsið stendur sem minnisvarði um stórhug Gunnars þegar hann sneri heim til Íslands sem frægur og fjáður rithöfundur eftir þrjátíu ára dvöl í Danmörku.

Gunnar og Franzisca, kona hans, bjuggu í níu ár á Skriðuklaustri en fluttu þá til Reykjavíkur. Þau gáfu íslenska ríkinu Gunnarshús og jörðina alla árið 1948 til ævarandi eignar. Árin 1949-1990 var starfrækt tilraunastöð í landbúnaði á staðnum. Frá árinu 2000 hefur Stofnun Gunnars Gunnarssonar rekið menningar- og fræðasetur á Skriðuklaustri.

Bygging hússins var risavaxið verkefni á sínum tíma. Byggingarkostnaður var á við tíu einbýlishús í Reykjavík. Frá júní og fram í október 1939 voru að jafnaði 20-30 manns að störfum auk matráðskvenna og vikapilta. Gera má ráð fyrir að hátt í hundrað manns hafi komið að verkinu. Í vinnudagbók eru skráðar alls um 33.000 vinnustundir á 64 einstaklinga.

  • Skriduklaustur Clouds 011
  • Skriduklaustur Sign Post
  • Skriduklaustur Flags 01
  • Skriduklaustur Crowd Sunny
  • Skriduklaustur Statue Entrance
  • Skriduklaustur Flowers 01
  • Skriduklaustur Stones 01
  • Skriduklaustur Crowd 01
  • Skriduklaustur Gunnarshus Summer
  • Skriduklaustur Clouds 02

Arkitektinn  

Arkitektinn Johann Friedrich (Fritz) Höger fæddist 1877 skammt frá Hamborg í Þýskalandi. Hann lærði smíðar og múrverk en var sjálfmenntaður sem arkitekt. Hann rak teiknistofu í Hamborg frá 1907 og teiknaði allt frá íbúðarhúsum og upp í kirkjur og ráðhús.

Nafn Högers er þekkt í þýskri og alþjóðlegri byggingarlistarsögu 20. aldar enda var hann einn helsti brautryðjandi norður-þýsks múrsteins- expressjónisma (Backsteinexpressionismus).

Þekktasta bygging Högers er Chile-Haus í Hamborg, sem hann teiknaði fyrir kaupsýslumanninn Henry B. Sloman. 10.000 fermetra skrifstofubygging byggð á árunum 1922-1924. Lögun húsins er einstök og er það eitt þeirra húsa í Hamborg sem bíða þess að komast inn á heimsminjaskrá UNESCO.

Höger gerðist félagi í nasistaflokknum á fjórða áratugnum og reyndi að koma sínum byggingarstíl að hjá stjórnendum þriðja ríkisins. Hinn klassíski stíll Albert Speer varð hins vegar ofan á og eftir 1935 fór að halla undan fæti hjá Höger.

Fritz Höger var mikill áhugamaður um bókmenntir og orti sjálfur ljóð. Hann var félagi í Norræna félaginu þýska (Nordische Gesellschaft) og sótti samkomur skáldahópsins Eutiner Dichterkreis. Það var á þeim vettvangi sem hann kynntist Gunnari og tókst með þeim góð vinátta. Þeir áttu það sammerkt að hafa brotist úr fátækt til frægðar og frama. Vinátta þeirra entist allt þar til Höger lést í júní árið 1949.

Þjóðsagan

Hið fræga Arnarhreiður Einhvern tíma á 6. eða 7. áratugnum komst á kreik á Íslandi sú kjaftasaga að sami arkitekt væri að Gunnarshúsi og svokölluðu Arnarhreiðri Hitlers, Das Kehlsteinhaus, sem byggt var í nágrenni Berchtesgaden syðst í Þýskalandi 1938. Endaði það með því að sú staðleysa birtist á prenti og varð að útbreiddum misskilningi. Enginn fótur er fyrir þessum sögusögnum. Arnarhreiðrið teiknaði arkitektinn Roderich Fick sem hannaði fleiri byggingar fyrir foringja Þriðja ríkisins í Obersalzberg. Stíll þessara tveggja húsa er hins vegar áþekkur og bæði sækja útlit sitt í hefðbundinn suður-þýskan sveitastíl.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur