Rannsóknir

Sumarið 2000 fór fram forkönnun til að leita klausturrústa á Skriðuklaustri. Þá voru rústir kirkju og kirkjugarðs sjáanlegar á svonefndu Kirkjutúni neðan við Gunnarshús og höfðu verið friðlýstar árið 1988. Teikning Daniels Bruun frá 1901 af þessum rústum sýndi örlítið meira. Jarðsjármælingar og könnunarskurðir sýndu hins vegar umfangsmiklar rústir undir túninu utan veggja kirkjugarðsins.

Þær stóðu á þykku gjóskulagi úr Veiðivatnagosinu 1477 og þótti ljóst að klaustrið væri fundið. Árið 2002 hófst síðan uppgröftur sem stóð í tíu ár. Búið var til hnitakerfi og fullgrafnir nokkrir reitir á hverju sumri. Klaustrið er nú það eina sem hefur verið grafið upp í heild sinni hérlendis og það nyrsta í Evrópu.

Tíu ára uppgröftur

Uppgröfturinn stóð í tíu ár undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings. Að jafnaði voru 14 fornleifafræðingar að störfum á hverju sumri og grafið í 8-9 vikur. Að rannsókninni komu jafnframt sérfræðingar á ýmsum sviðum. Í fyrstu miðaði rannsóknin að uppgreftri á minjum um byggingar, kirkju og búsetu reglubræðra. Sérstakt kapp var lagt á að finna leifar um bóklega iðju þeirra, samkvæmt ríkjandi hugmyndum um íslensk klaustur. Fljótlega beindist rannsóknin hins vegar að kirkjugarði klaustursins. Hann geymdi mikilvægar upplýsingar um heilsufar almennings og aðbúnað við líkn og hjúkrun sem og daglegt líf á miðöldum.

Byggingarnar

Flest bendir til þess að Skriðuklaustur hafi verið byggt í einni lotu á síðasta áratug 15. aldar. Kirkjan var þó byggð seinna og vígð 1512. Elsta bygging klasans gæti verið gistiskálinn við klausturhliðið. Gistiskálar voru oft reistir fyrstir húsa í miðaldaklaustrum þar sem stofnendur lögðu áherslu á líknarstarf. Þeir voru einskonar kjarni sem allt annað snerist um, húsaskjól fyrir ferðalanga og pílagríma og hæli fyrir sjúka og fátæka sem leituðu á náðir klaustursins. Önnur hús voru síðan byggð í kring.

Grunnflötur klausturbygginganna er yfir 1500 fermetrar og sem er talsvert meira en á hefðbundnum miðaldabæjum hérlendis. Herbergin voru einnig mismunandi að stærð og gerð. Í klaustrinu var svefnálma, eldhúsálma með eldhúsi aðskildu frá matsal, vinnuhúsa- og geymsluálma, auk kirkju og kirkjugarðs sem afmarkaður var með vegghleðslu.


Rigerðir, skýrslur og önnur gögn

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur