Klausturminjar

Helgisögnin

Gömul sögn greinir frá kraftaverki í Fljótsdal á 15. öld. Valþjófsstaðaklerkur reið eitt sinn sem oftar út dalinn að þjónusta dauðvona sóknarbarn. Í áfangastað kom í ljós að hann hafði týnt öllu sem nota þurfti til að veita þeim sjúka síðasta sakramentið. Piltur á bænum var sendur að leita. Þegar hann kom eftir götunni fyrir neðan bæinn að Skriðu sá hann hvar kaleikurinn stóð á þúfu fullur af víni, patínan yfir og á henni brauðið. Litið var á þetta sem kraftaverk og helgisagan hermir að reist hafi verið kapella til minningar um atburðinn með altarið þar sem þúfan var. Nokkru síðar var þar stofnað klaustur.

Stofnun Skriðuklausturs

Skriðuklaustur var stofnað síðast þeirra klaustra sem störfuðu á Íslandi á kaþólskum tíma. Það var aðeins rekið í tæp 60 ár og blómaskeið þess stóð vart lengur en í fjóra áratugi. Varðveitt er gjafabréf Sesselju Þorsteinsdóttur og Hallsteins Þorsteinssonar, sýslumanns á Víðivöllum ytri í Fljótsdal, um að þau gefi jörðina Skriðu til stofnunar klausturs. Bréfið er undirritað 8. júní árið 1500 en talið er fullvíst að klaustrið hafi verið stofnað fyrr og líklega þegar Stefán Jónsson, biskup í Skálholti, vísiteraði Fljótsdal í fyrsta sinn árið 1493.

Endalokin

Ný kirkjuskipan tók gildi í Skálholtsbiskupsdæmi árið 1541, fjórum árum eftir að lútherstrú var lögleidd í Danmörku. Danski kóngurinn lagði þá hald á klaustrin og eignir þeirra en Skriðuklaustur starfaði áfram í rúman áratug á undanþágu. Klausturhaldi á Skriðu lauk formlega þegar konungur leigði sr. Einari Árnasyni í Vallanesi klaustrið og allar eignir þess. Skjal þess efnis var undirritað 12. september 1554.
Allt bendir til þess að klausturhúsin á Kirkjutúni hafi fengið að falla í friði þegar nýtilegir munir höfðu verið fjarlægðir og timbur hirt. Klausturkirkjan stóð hins vegar áfram og var á ábyrgð þeirra sem fóru með umboð Skriðuklausturs hverju sinni. Henni hrakaði með árunum og um 1670 var minni kirkja byggð á rústum þeirrar gömlu. Skriðukirkja var afhelguð 1792 og þá var löngu hætt að jarða í kirkjugarðinum.

Aðgengilegt minjasvæði

Minjasvæðið á Skriðuklaustri var opnað formlega í ágúst 2012 á messudegi klausturkirkjunnar þegar 500 ár voru liðin frá vígslu hennar. Útsýnispallur er á kletti fyrir ofan minjarnar með fræðsluskiltum en jafnframt er hægt að ganga niður af pallinum og um rústirnar sjálfar. Fræðsluskilti er í hverju herbergi sem greinir frá tilgangi þess og nokkrum munum sem í því fundust.Fjársjóðir Skriðuklausturs

Fjársjóðir Skriðuklausturs er snjallsímaleikur til spilunar á Skriðuklaustri í Fljótsdal og byggir á gögnum og minjum fornleifarannsóknarinnar á Skriðuklaustri.

Leikurinn er sambland af fjársjóðsleit, spurninga- og hlutverkaleik og nýtir AR-tækni (viðaukaveruleika-tækni) með því móti að fjársjóðir og vísbendingar eru faldir á sýningunni um miðaldaklaustrið.

Leikurinn á að vera bæði fræðandi og spennandi og á að höfða til barna sem og fullorðinna. Sem stendur er aðeins hægt að spila leikinn á snjalltæki með Android stýrikerfi og hægt að sækja hann á Playstore hér.

Höfundur leiksins er Birkir Brynjarsson og er leikurinn unninn með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Uppbyggingarsjóðs Austurlands. Gerð leiksins tengist einnig CINE-verkefninu sem Gunnarsstofnun er aðili að.

 

Rannsóknir

Sumarið 2000 fór fram forkönnun til að leita klausturrústa á Skriðuklaustri. Þá voru rústir kirkju og kirkjugarðs sjáanlegar á svonefndu Kirkjutúni neðan við Gunnarshús og höfðu verið friðlýstar árið 1988. Teikning Daniels Bruun frá 1901 af þessum rústum sýndi örlítið meira. Jarðsjármælingar og könnunarskurðir sýndu hins vegar umfangsmiklar rústir undir túninu utan veggja kirkjugarðsins.

Rannsóknir

Margmiðlun

Frá því að uppgreftri lauk á Skriðuklaustri árið 2012 hefur verið unnið að ýmis konar rannsóknum og miðlun á því sem fram fór í miðaldaklaustrinu. Árið 2012 var sett saman fyrsta þrívíddarlíkanið og það gerði Vala Gunnarsdóttir fornleifafræðingur.

Skoðaðu þig um í klaustrinu

CINE verkefnið

Verkefnið Tenging náttúru- og menningarminja í umhverfi Norðurslóða (CINE) miðar að því að bæta við upplifun fólks á minjum með því að nýta nýjar tæknilausnir í anda hugmyndafræði um „safn án veggja“. Ný stafræn tækni, s.s. viðaukinn veruleiki (augmented reality, AR), sýndarheimar (virtual reality, VR) og notendavæn smáforrit, verður nýtt til að blása lífi í fortíðina. Með aðstoð tækninnar verður jafnframt unnt að sjá áhrif umhverfisbreytinga á minjastaði og horfa til hugsanlegrar framtíðar.

Líttu á fortíðina

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur