Úthlutun úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar

Laugardaginn 19. maí var úthlutað í þriðja sinn úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar. Athöfnin fór fram á Skriðuklaustri. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var viðstaddur úthlutunina og í máli hans kom kom fram að ríkisstjórn Íslands hefði í desember sl. samþykkt að auka við stofnfé sjóðsins með framlagi upp á 16,5 m.kr. sem þýddi að nú væru rúmar 60 m.kr. í sjóðnum til ávöxtunar.

Helgi Gíslason, formaður sjóðsstjórnar, sagði að í ljósi viðbótarframlags ríkisins hefði sjóðsstjórn ákveðið að hafa 1,5 m.kr. til úthlutunar í ár. Margar metnaðarfullar umsóknir hefðu borist og alls verið sótt um 6,7 m.kr. Stjórnin ákvað að veita sex verkefnum styrki.

Lægsta styrkinn 150 þús. kr. fékk Ívar Andri Bjarnason til tónlistarnáms í Danmörku. Þrjú verkefni hlutu 200 þús. kr. styrk: Anar Rahimov þýðandi í Aserbaídsjan til að heimsækja Ísland vegna þýðinga á verkum Gunnars Gunnarssonar; Ólafía Herborg Jóhannsdóttir til ritunar og útgáfu á bók um sögu Loðmundarfjarðar með áherslu á Stakkahlíð; Tónleikafélag Austurlands til að halda 80's rokkveislu í góðgerðarskyni. Næsthæsta styrkinn 300 þús. kr. fengu Berta Dröfn Ómarsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson til flutnings og vinnustofu á Austurlandi vegna óperunnar The Raven's Kiss. Hæsta styrkinn að þessu sinni hlutu Sigurjón Pétursson og Þóra Hrönn Njálsdóttir til ljósmyndaverkefnis um Svartfugl, skáldsögu Gunnars um morðin á Sjöundá á Rauðasandi, en þau hafa áður unnið sambærilegt verkefni út frá Aðventu.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur