Frágangur minjasvæðis

Þó að uppgreftri klausturrústa hafi lokið síðasta sumar er mikið líf á minjasvæðinu í júlí. Fimm fornleifafræðingar eru að grafa lítil svæði sem urðu eftir eða þarf að grafa vegna frágangs svæðisins. Síðan eru sjálfboðaliðar frá SEEDS mættir til að koma minjasvæðinu í fagurt horf fyrir Skriðuklausturshátíðina sem verður haldin 19. ágúst nk. Þá verða liðin 500 ár frá vígslu klausturkirkjunnar og við það tækifæri verður minjasvæðið opnað formlega fullfrágengið. Vinna er hafin við smíði útsýnispalls á klettinn ofan við rústirnar en þaðan er góð sýn yfir grunnform hinna fornu klausturbygginga sem hefur verið hlaðið upp á grunni gömlu veggjanna.