Skáldverk

Gunnar Gunnarsson var afkastamikill rithöfundur og bestu bækur hans eru mikilsháttar skáldverk sem eiga eftir að halda nafni hans á lofti um ókomna tíð. Má þar nefna verk eins og Aðventu, Fjallkirkjuna, Sælir eru einfaldir og Svartfugl.

Mig dreymdi draum, þegar ég var ungur. Ég gekk eftir götu og í hallinu 
hinum megin við götuna lágu bók við bók og ég vissi að þessar bækur 
voru mitt verk. Ég reyndi að lesa í þeim, ætlaði að læra þær í snatri, 
en vaknaði af ákafanum og mundi ekki orð af því sem í þeim stóð.

Höfundarferillinn spannar um tvo tugi skáldsagna, óteljandi smásögur, fáein leikrit, töluvert af kvæðum og ógrynni greina og fyrirlestra. Er Aðventa sú saga sem víðast hefur farið. Gunnar var tilnefndur nokkrum sinnum til Nóbelsverðlauna í bókmenntum. Næst því að hljóta þau komst hann 1955 þegar skáldbróðir hans Halldór Laxness fékk þau.

Fyrstu bækur

Gunnar Gunnarsson var aðeins 17 ára þegar hann gaf út sínar fyrstu ljóðabækur. Þær komu út hjá Oddi Björnssyni á Akureyri árið 1906 og báru heitin Vorljóð og Móðurminning. Kvæðin eru nýrómantísk og bera þess merki að vera ort af skáldi sem er að stíga sín fyrstu skref.
Í sumum þeirra má þó sjá drætti sem síðar áttu eftir að skila höfundinum langt í heimi bókmenntanna. Náttúrusýn hins unga skálds er sterk og umhverfið dregið skýrum dráttum.

Aðventa

Gunnar Gunnarsson lagði grunninn að sinni vinsælustu sögu, Aðventu, með smásögunni Góða hirðinum (Den gode Hyrde) í danska tímaritinu Julesne 1931. Söguna byggði hann á frásögn Fjalla-Bensa, Benedikts Sigurjónssonar, af svaðilförum við eftirleitir á Mývatnsöræfum.
Aðventa kom fyrst út 1936 í útgáfuröðinni Reclam Universal-Bibliothek og hefur nú verið gefin út á yfir 10 tungumálum um víða veröld og hvarvetna selst vel. Stærsta upplagið var prentað í Bandaríkjunum þegar hún var gjafabók í Book of the Month Club 1941 og fór í mörg hundruð þúsundum eintökum. Þá er hún enn gefin út á nokkurra ára fresti hjá Reclam í Þýskalandi og hafa frá styrjaldarlokum selst yfir 400.000 eintök af henni þar í landi. Það má því leiða líkum að því að Aðventa hafi selst í yfir milljón eintökum frá því hún kom út fyrir rúmum tæpum 80 árum.

Sagt er að Walt Disney hafi á sínum tíma haft áhuga á að gera teiknimynd eftir Aðventu og hringt í Gunnar sjálfan.
Þegar skáldið hafi spurt kvikmyndajöfurinn um hvaða laun kæmu í sinn hlut fyrir réttinn til kvikmyndatöku, hafi Disney sagt að hann væri nú vanari því að fá greitt. Að fengnu því svari lagði Gunnar á enda hafði hann litla trú á kvikmyndum eftir bitra reynslu af því hvernig Sögu Borgarættarinnar var umbreytt í höndum Nordisk Film Kompani 1919.

Svartfugl

Sagan af Eyjólfi kapelán og ástríðuglæpum Bjarna og Steinunnar kom fyrst út í Danmörku 1929. Strax ári síðar var hún gefin út á hollensku, þýsku og sænsku og útgáfur á fleiri tungumálum fylgdu í kjölfarið. Bókin kom þó ekki út á íslensku fyrr en 1938 í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar.
Svartfugl fékk hvarvetna góða dóma jafnt lesenda sem gagnrýnenda. Í könnun meðal helstu rithöfunda Dana, þar sem þeir voru beðnir um að nefna hvaða skáldsaga ársins 1929 hefði orkað sterkast á þá, tróndi Svartfugl efstur á lista. Sömuleiðis var bókin í efsta sæti metsölulista í Danmörku fyrir jólin 1929 og seldist betur en verk eftir Karin Michaelis og Sigrid Unset, sem og Tíðindalaust á vesturvígsstöðvunum eftir Erich Maria Remarque. 

Leikrit hafa verið gerð eftir Svartfugli á Íslandi og síðast var sýnt verk árið 2012 byggt á sögu Gunnars

Fyrsti Krimminn

Svartfugl er stundum sögð vera fyrsta alvöru íslenska glæpasagan þar sem réttarrannsókn spinnur söguþráðinn. Í henni býr þó margt fleira og segja má að hún lýsi samtímanum eins vel og þeim tíma sem sagan gerist á. Spurningum um eðli valdsins, trú og fleiri eilífðarmálum er velt upp í sögunni. Spurningum sem ekki eiga síður við nú á ógnaröld hryðjuverka en á millistríðsárum síðustu aldar.

Fjallkirkjan

Fjallkirkjan, sagan af Ugga Greipssyni er byggð á ævi Gunnars sjálfs þó að lögmál skáldskaparins hafi ráðið meiru í henni en raunveruleikinn eftir því sem höfundurinn sagði sjálfur. Lýsing skáldsins á æskuárum Ugga er einstök í íslenskum bókmenntum og hafa margir viljað setja verkið á stall með bernskusögum Gorkís, Pagnols og fleiri heimsfrægra höfunda. 

Fjallkirkjan naut ekki einungis vinsælda í Skandinavíu og Þýskalandi. Hún var gefin út í Bandaríkjunum 1938 og fór fyrsta bindi hennar, Ships in the sky, beint í 6. sæti metsölulista bókaverslana í New York. Jafnframt fékk hún frábæra dóma gagnrýnenda sem kepptust við að lofa hana.
Á Íslandi kom sagan fyrst út í þýðingu Halldórs Laxness 1941-1943. Sú þýðing kom síðan út í einni bók með myndskreytingum Gunnars yngri listmálara 1951.

Saga Borgarættarinnar

Skáldsagan sem færði Gunnari Gunnarssyni frægð og frama í Danmörku var Saga Borgarættarinnar, sagan af Ormarri Örlygssyni og hans fólki. Hún kom út hjá Gyldendal í fjórum bindum á árunum 1912-1914 og náði strax á þriðja bindi miklum vinsældum.

Þó að Gunnar teldi hana síðar vera ófullkomið byrjendaverk þá þakkaði hann Borgarættinni það að hann náði að helga sig ritstörfum og láta draum sinn um vinnu við skáldskap rætast.
Saga Borgarættarinnar var kvikmynduð 1919, fyrst íslenskra skáldsagna. Það var hinn kunni danski leikstjóri og leikari Gunnar Sommerfeldt sem átti hugmyndina að því og kom til Íslands á vegum Nordisk Film Kompani með fríðu föruneyti í ágústbyrjun 1919. Gunnar skáld var með í för og fylgdi kvikmyndatökuliðinu vítt og breitt um Suður- og Vesturland. Vakti leiðangurinn mikla athygli því að 40 hesta og flutningabifreið þurfti undir farangurinn. Síðan var komið aftur til Reykjavíkur um miðjan september og reist sviðsmynd. Tökum lauk um miðjan október og var myndin frumsýnd um haustið 1920 við miklar vinsældir. Var þetta dýrasta mynd sem Nordisk Film hafði gert til þessa en Gunnar Sommerfeldt tókst næst á við Gróður jarðar eftir Knut Hamsun.

Borgarættin hefur verið þýdd á fjölda tungumála og var endurútgefin í Danmörku margoft nær alla 20. öldina.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur