Frágangur klausturrústa

Prenta út
Klausturrústir haustið 2011Undanfarnar tvær vikur hafa sjálfboðaliðar frá SEEDS unnið að frágangi á fornleifasvæðinu á Skriðuklaustri. Uppgreftri rústanna lauk í ágúst eftir tíu ára rannsókn og nú er búið að ganga þannig frá yfirborði svæðisins að ganga má um grunnform bygginganna frá 15. og 16. öld. Stærð bygginganna er umtalsverð, sem kemur glögglega í ljós við þessa einföldu endurgerð, og ljóst að hluti þeirra hefur verið á tveimur hæðum. Á næstu mánuðum verður unnin verndaráætlun fyrir svæðið í samstarfi við Fornleifavernd ríkisins og vonir standa til að næsta sumar, þegar 500 ár verða liðin frá vígslu klausturkirkjunnar, verði frágangi svæðisins lokið að fullu með tilheyrandi fræðsluskiltum og góðu aðgengi.