Draflastaðaklæðið. Ljósm. ÞJMS.

Fyrsti viðburður ársins 2024 á Skriðuklaustri er að venju á konudeginum. Að þessu sinni kemur Lilja Árnadóttir, fyrrum sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins, með erindið Með verkum handanna: Um listsköpun íslenskra kvenna á fyrri öldum.  Titill erindisins er hinn sami og yfirstandandi sýningar í Þjóðminjasafni Íslands þar sem sýnd eru öll 15 refilsaumsklæði íslensk sem varðveist hafa frá miðöldum. Sýningin byggir á áratugarannsókn Elsu E. Guðjónsson (1924-2010) á refilsaumi en hún starfaði á Þjóðminjasafni Íslands í rúm 30 ár. Lilja var ráðgjafi við sýninguna og ritstýrði einnig bók Elsu sem kom út í tengslum við sýninguna og hefur vakið mikla athygli.

Erindið hefst kl. 14, sunnud. 25. feb. Aðgangur er ókeypis og eru öll velkomin meðan húsrúm leyfir. Viðburðinum verður einnig streymt á Youtube-rás Skriðuklausturs.

Klausturkaffi býður upp á hádegisverð á undan erindinu og kaffihlaðborð að því loknum. Nánari upplýsingar um það eru á Facebooksíðu Klausturkaffis.