20. desember 2008


Arndís Þorvaldsdóttir las á Skriðuklaustri.

Vellukkaður Aðventulestur og jólakveðjur

Sunnudaginn 14. desember var Aðventa lesin á þremur stöðum, á Skriðuklaustri, í Gunnarshúsi í Reykjavík og í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Lesið var á sama tíma alls staðar og tók lesturinn um þrjár klukkustundir með smáhléum. Á Skriðuklaustri lásu Arndís Þorvaldsdóttir og Dagný Pálsdóttir. Í Reykjavík las Þórarinn Eldjárn og í Kaupmannahöfn lásu Svavar Gestsson og Guðrún Ágústsdóttir ásamt fleirum.

Viðburður þessi var í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Sendiráð Íslands í Danmörku. Stefnt er að því hjá Gunnarsstofnun að fjölga stöðum sem Aðventa er lesin á þriðja sunnudag í aðventu á næsta ári og gera þetta að föstum viðburði. Sagan er enda klassísk og á erindi við alla.

Jólahátíðin fer í hönd innan fárra daga og starfsfólk Gunnarsstofnunar, Klausturkaffis og Skriðuklaustursrannsókna senda öllum þeim sem sóttu staðinn heim á árinu bestu jóla- og nýjárskveðjur.

 



8. desember 2008

Vísindavaka á aðventu

Samstarfsfélag um Vísindagarð og Gunnarsstofnun bjóða til vísindavöku kl. 16.30 fimmtudaginn 11. des. á Skriðuklaustri. Á dagskrá verða tvö erindi. Halldóra Tómasdóttir staðarhaldari á Skriðuklaustri segir frá verkefninu Sagnalist sem unnið hefur verið í samstarfi Gunnarsstofnunar og Þórbergsseturs og snýst m.a. um að safna minningum eldra fólks um fermingar. Þá munu Ari Hallgrímsson og Halldór K. Halldórsson segja frá heiðarbýlum upp af Vopnafirði.

Fiskisúpa, brauð og kaffi í boði Samstarfsfélags um Vísindagarð. Allir velkomnir.


7. desember 2008


Gaulálfarnir Gauli og Rauli voru hræddir við hjónin.

Velheppnuð Grýlugleði

Grýlugleðin sem fram fór 30. nóvember tókst í alla staði vel og Grýla og Leppalúði létu sig ekki vanta. Sagnaálfar og gaulálfar skemmtu börnunum og tókst með góðri hjálp þeirra að hrekja óvættina á braut. Húsið á Skriðuklaustri er annars grýlum prýtt þessa dagana því að vel á annað hundrað grýlur frá austfirskum grunnskólabörnum eru þar til sýnis. Á Grýlugleðinni voru afhentar viðurkenningar fyrir handgerðar grýlur.

Grunnskóli Borgarfjarðar fékk viðurkenningu fyrir frumlegustu grýluna.
Hallormsstaðaskóli fékk viðurkenningu fyrir ógurlegustu grýluna.
Héðinn Sölvi Halldórsson í 4. bekk Seyðisfjarðarskóla fékk viðurkenningu fyrir skemmtilegustu grýluna.
Laufey Sverrisdóttir í 6. bekk Fellaskóla fékk viðurkenningu fyrir sætustu grýluna.


Sagnaálfurinn Dvalinn var mættur að vanda.


Sagnaálfarnir Ögn, Agnarögn og Agnaragnarögn.


Krakkar úr Hallormsstaðaskóla taka við viðurkenningu.


24. nóvember 2008

RITHÖFUNDARLESTIN MISSIR AF SKRIÐUKLAUSTRI VEGNA VEÐURS. UPPLESTRI SEM VERA ÁTTI Í KVÖLD FIMMTUDAG ER AFLÝST VEGNA ÓVEÐURS OG ÓFÆRÐAR.

Rithöfundalestin og Grýlugleði

Nú er tími hinna árvissu viðburða á Skriðuklaustri sem annars staðar. Á fimmtudagskvöldið kl. 20. rennir rithöfundalestin í hlað. Að þessu sinni eru það Hugleikur Dagsson, Rannveig Þórhallsdóttir, Ævar Örn Jósepsson og Jón Hallur Stefánsson sem koma og lesa úr verkum sínum. Kaffi og kökur og stemning við arineldinn í stássstofunni, aðgangur kr. 1000 (veitingar innifaldar) Lestin er að venju í samstarfi við Vopnfirðinga og Seyðfirðinga.

Grýlugleðin verður síðan sunnudaginn 30. nóv. og hefst kl. 14.00. Búast má við gaulálfum og sagnaálfum og mikil hætta á að Grýla og Leppalúði láti sjá sig. Hægt verður að skoða ógrynni af handgerðum grýlum sem grunnskólabörn á Austurlandi hafa sent til Gunnarsstofnunar og veitt verður viðurkenning til þess bekkjar eða skóla sem skaraði fram úr í grýlugerðinni. Ekkert kostar inn á Grýlugleðina. Að sjálfsögðu verður síðan jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi eftir öll ólætin.


11. nóvember 2008

Herragarðskvöld og ljóðalestur

Á Dögum myrkurs er nóg um að vera á Skriðuklaustri. Miðvikudagskvöldið 12. nóvember verður Nótt og draumur, þriðja bindi Fjallkirkjunnar tekið til umfjöllunar í leshring sem allir er velkomnir að koma í og hefst hann kl. 20.00. Á föstudagskvöldið 14. nóv. verður spilaður lomber frá kl. 20 og fram á rauða nótt. Nýliðar alltaf velkomnir.

Laugardagskvöldið 15. nóvember býður Klausturkaffi upp á seiðandi kræsingar á herragarðskvöldverði. Þar verður tekið á móti fólki með bláberjadrykk og snittum og meðal þess sem á borð verður borið eru: heitreyktar lambalundir, laxarúlla með wasabi, grafinn hreindýravöðvi, grillaðar gæsabringur, nautalundir og lerkisvepparisottó. Húsið verður opnað kl. 18.30 og eftir að kvöldverði lýkur verður létt draugakvöldvaka í stássstofunni með blandaðari dagskrá. Hefst hún kl. 21.00 og er aðgangur ókeypis.

Sunnudaginn 16. nóvember, sem jafnframt er Dagur íslenskrar tungu, verður blásið til ljóðadagskrár kl. 14. Þar munu ljóðskáldin Ingunn Snædal, Sigurður Ingólfsson og Þorsteinn Bergsson lesa úr eigin verkum en einnig sín uppáhaldsljóð eftir þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. Aðgangur er ókeypis á dagskrána. Klausturkaffi verður með súkkulaðikökuhlaðborð og er húsið opið kl. 14-17.


10. nóvember 2008


Frá Aðventuferð í nóvember 2008. Myndirnar tók Skúli Björn.

FJALLAFERÐ Á SLÓÐIR BENSA OG AÐVENTU

Laugardaginn 8. nóvember efndi Gunnarsstofnun til ferðar á söguslóðir Aðventu á Mývatnsöræfum í samstarfi við 4x4 deildir og ferðafélögin á Húsavík og Fljótsdalshéraði. Um tuttugu manns rifjuðu saman upp skáldsögu Gunnars Gunnarssonar og sagnir af fyrirmynd aðalpersónunnar, Benedikt Sigurjónssyni, sem var einn af þeim þrautseigu mönnum er eyddu dögum og vikum á hverju ári á fyrri hluta síðustu aldar til að bjarga fé af fjöllum í vetrarhörkum. Með í för var Arngrímur Geirsson í Álftagerði sem í æsku hafði kynni af Bensa og hann sagði sögur af honum en lýsti einnig vel þeim aðstæðum sem eftirleitarmenn þurftu að takast á við. Oftar en ekki komust menn í hann krappann í óveðrum en fengu ekki þíðviðri og auða jörð á öræfum eins og ferðahópurinn á laugardaginn.

Ferðin hófst við gangnamannakofann Péturskirkju í Hrauntöglum og þar brá Pétur Eggerz leikari upp mynd af Bensa, sauðinum Eitli og hundinum Leó, úr leikgerð Möguleikhússins af Aðventu. Þaðan var haldið að Sæluhúsinu við Jökulsá sem byggt var 1881 og því ein fárra bygginga sem enn standa frá þeim tíma sem saga Gunnars gerist á og Benedikt Sigurjónsson gisti. Sæluhúsið er í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands en þarfnast orðið verulegra endurbóta. Ekki var talið óhætt að senda fleiri en þrjá inn í einu til að skrifa í gestabók hússins.

Frá Sæluhúsinu var haldið á jeppunum inn með Jökulsá eftir Öskjuleið. Á rúmum klukkutíma var lögð að baki leið sem tók Bensa um átta klukkustundir að komast í góðu færi á sínum tíma. Áð var við kofann Tumba austan í Miðfelli sem er um það bil miðja vegu frá þjóðveginum og inn í Herðubreiðarlindir. Þar kúrir utan í fellinu hlaðinn kofi sem reistur var á sama stað og áður var niðurgrafinn gangnamannagrýta. Henni er vel lýst, bæði í sannri frásögn Þórðar Jónssonar af ferðum Benedikts Sigurjónssonar á aðventu 1925, sem birtist í Eimreiðinni 1931 og varð kveikjan að skáldsögu Gunnars, sem og í sögunni Aðventu þegar Bensi finnur í hríðarbyl afdrep neðanjarðar.

Hópurinn hélt aftur til byggða frá Miðfelli og endaði ferðin um söguslóðir í Möðrudal á Fjöllum. Þar fengu menn kraftmikla kjötsúpu hjá ferðaþjónustubændum Fjalladýrðar og síðan setti Pétur leikari á svið lokasenu Aðventu. Fylgdu ferðalangar í huganum Bensa til mannheima eftir mikla hrakninga en líkt og í sögunni voru ferðalokin góð og dagurinn eftirminnilegur.



17. október 2008


Frá Aðventuferð í nóvember 2007.

 

SÁLARNÆRING OG SEÐJANDI KRÆSINGAR
- fjölbreytt menningardagskrá fram að jólum

7. nóvember - Aðventa Gunnars - kvöldverður og leiksýning
Möguleikhúsið sýnir leikgerð Öldu Arnardóttur af hinni frægu skáldsögu Gunnars, Aðventu, í Végarði. Einn leikari. Pétur Eggerz, flytur söguna og bregður sér í hlutverk helstu persóna. Á undan leiksýningunni verður þjóðlegur kvöldverður á Skriðuklaustri. Kvöldverðurinn kostar kr. 3.490 og verður húsið opnað kl. 19. Miðaverð á leiksýninguna er kr. 1.900 (900 fyrir 16 ára og yngri) og hefst hún kl. 21. Kvöldverður og leiksýning saman kr. 4.990.

8. nóvember - Í fótspor Fjalla-Bensa - ferð á söguslóðir Aðventu
Gunnarsstofnun stendur öðru sinni fyrir dagsferð á jeppum á söguslóðir Aðventu á Mývatnsöræfum í samstarfi við Ferðafélög Fljótsdalshéraðs og Húsavíkur og Austurlands- og Húsavíkurdeildir 4x4, og með styrk frá Menningarráði Austurlands. Áð verður á sögustöðum, saga Gunnars rifjuð upp og frásagnir af Fjalla-Bensa. Með í för verða Pétur Eggerz leikari, sem mun lesa og flytja brot úr verkinu, og Arngrímur Geirsson í Álftagerði, sem gjörþekkir svæðið og sögur af svaðilförum Bensa. Endað verður í kjötsúpu í Möðrudal. Sætaframboð er takmarkað og áhugasömum er bent á að skrá sig hið fyrsta í síma 471-2990 eða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Þátttökugjald er kr. 9.500 og er þá kjötsúpan innifalin. Skráningarfrestur er til fimmtudags 6. nóvember.

12. nóvember - Leshringur um Nótt og draum
Þriðja bindi Fjallkirkjunnar tekið til umfjöllunar. Allir velkomnir. Hefst kl. 20.00.
14. nóvember - Lomberkvöld á Klaustri
Lomber spilaður frá kl. 20.00 til miðnættis. Áhugasamir nýliðar boðnir sérstaklega velkomnir.

15. nóvember - Herragarðskvöldverður og kvöldvaka á Dögum myrkurs
Í tilefni af Dögum myrkurs býður Klausturkaffi til herragarðskvöldverðar þar sem töfraðar verða fram alls konar kræsingar. Að honum loknum stendur Gunnarsstofnun fyrir kvöldvöku með blandaðri dagskrá.

16. nóvember - Súkkulaðikökuhlaðborð á Degi íslenskrar tungu
Að venju verður Klausturkaffi með súkkulaðikökuhlaðborð á Dögum myrkurs. Í tilefni af Degi íslenskrar tungu verður Gunnarsstofnun með stutta dagskrá sama sunnudagssíðdegi sem verður nánar auglýst síðar.

27. nóvember - Rithöfundalestin rennir í hlað
Hin árvissa rithöfundalest kemur við á Klaustri og les úr jólabókunum. Heitt súkkulaði og jólakökur hjá Klausturkaffi.

30. nóvember - Grýlugleði og Grýlubrúður
Hefðbundin dagskrá um Grýlu og hyski hennar með gaulálfum og sagnaálfum. Sýning á Grýlubrúðum sem grunnskólabörn á Austurlandi hafa unnið í vetur. Jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi.

4. og 5. des. - Jólaföstuhlaðborð hjá Klausturkaffi
Taktu þátt í að skapa nýja hefð og komdu á jólaföstuhlaðborð. Úrval grænmetis- og fiskrétta á kr. 3.890.

14. desember - Aðventuupplestur
Aðventa Gunnars Gunnarssonar lesin í heild sinni á skrifstofu skáldsins. Kyrrðarstund í amstri jólanna.


7. október 2008


Frá Aðventuferð í nóvember 2007.

Námskeið um Aðventu og ferð á söguslóðir

Endurmenntunarstofnun HÍ og Gunnarsstofnun standa fyrir námskeiði þar sem Jón Yngvi Jóhannsson, bókmenntafræðingur sem nú vinnur að ritun ævisögu Gunnars, mun ásamt gestakennurum veita nemendum innsýn í útbreiddustu sögu skáldsins: Aðventu. Kennt verður þrjú kvöld á tímabilinu 20. október til 3. nóvember og verður sent út í fjarfundi frá Reykjavík til fræðslumiðstöðva eins og Þekkingarnetsins á Egilsstöðum ef næg þátttaka fæst. Námskeiðsgjald er kr. 13.400. Gunnarsstofnun mun síðan eftir námskeiðið standa fyrir ferð á söguslóðir Aðventu á Mývatnsöræfum líkt og gert var á síðasta vetri í samstarfi við jeppamenn. Sú ferð verður auglýst nánar síðar. Nánari upplýsingar um námskeiðið og skráning á það er hjá Endurmenntun HÍ.


22. ágúst 2008

Fljótsdalsdagur Ormsteitis:
FLJÓTSMENN, MÚGSEFJUN OG ÞRISTARLEIKAR

Hinn árlegi Fljótsdalsdagur Ormsteitis verður sunnudaginn 24. ágúst. Hann hefst með gönguferð við Hrafnsgerði kl. 10.00 undir leiðsögn Helga Hallgrímssonar og fram að hádegi verður einnig þrautakeppni fyrir fjölskyldur í Víðivallaskógi. Í hádeginu er boðið upp á pylsugrill í veislurjóðri Víðivallaskógar og hádegisverðarhlaðborð er hjá Klausturkaffi. Klukkan 14.00 hefst síðan dagskrá á Skriðuklaustri með stórtónleikum. Þar munu hið fljótsdælska bítlaband Fljótsmenn stíga á stokk í tilefni 40 ára afmælis síns og hita upp fyrir hljómsveitina Múgsefjun sem gert hefur garðinn frægan í sumar með laginu "Þú ert svo lauslát". Að tónleikunum loknum verður fimleikadeild Hattar með sýningu og síðan taka við hinir óborganlegu Þristarleikar. Á þeim verður að venju keppt um Bessasteininn í steinatökum, pokahlaupi, fjárdrætti og rababarakasti. Sultukeppnin verður á sínum stað og keppt í tveimur flokkum, rababarasultum og öðrum sultum. Þá verður keppt um lengsta rababaralegginn. Gert er ráð fyrir að Þristarleikum verði lokið kl. 17.00 og þá verður guðsþjónusta við rústir klaustursins forna enda var 24. ágúst messudagur hinnar gömlu klausturkirkju. Sr. Davíð Tencer, prestur kaþólsku kirkjunnar á Kollaleiru, og sr. Lára G. Oddsdóttir sóknarprestur á Valþjófstað þjóna. Ormsteiti mun ljúka með þessari athöfn við klausturrústirnar.

Frítt er á alla viðburði í Fljótsdal en þeir sem standa að deginum eru Fljótsdalshreppur, Skriðuklaustur (Gunnarsstofnun), Klausturkaffi og Þristurinn.


5. ágúst 2008

Nýjar sýningar:
Furður Fljótsdals og Veiði II

Föstudaginn 2. ágúst voru opnaðar tvær nýjar sýningar á Skriðuklaustri. Í gallerí Klaustri sýnir nú Katerina Mistal, sænsk listakona sem dvaldi í Klaustrinu sumarið 2007. Sýning hennar kallast Jagt II eða Veiði II og í henni vinnu listakonan með samband manns og landslags. Fyrir augu ber m.a. hreindýraveiðimann, kínverska verkamenn við Kárahnjúkastíflu, litla tindáta og ungmenni úr Fljótsdal. Sýning Katerinu stendur til 29. ágúst.

Í stássstofunni var tekin niður sýningin Sögur í mynd og sett upp síðsumarssýningin Furður Fljótsdals. Á henni er leitast við að sýna og segja frá nokkrum náttúruvættum, sögustöðum eða þjóðsögum og fyrirbærum sem finnast innan Fljótsdals. Litið er við á Parthúsum, við Hengifoss, í helli Grýlu, hjá Lagarfljótsorminum, Hrafnkeli Freysgoða og á Skriðuklaustri. Hægt er að fara í teningaspil og læra um fleiri staði og sögur. Á sýningunni er jafnframt eftirlíking af Valþjófsstaðahurðinni sem Halldór Sigurðsson á Miðhúsum skar út og Héraðsbúar gáfu Kristjáni Eldjárn forseta Íslands þegar hann heimsótti Austurland 1971. Sýningin Furður Fljótsdals stendur fram í september.


21. júlí 2008

Gullhringur fannst við fornleifarannsókn

Fornleifafræðingarnir sem eru að störfum á Kirkjutúni við að grafa upp miðaldaklaustrið á Skriðu fundu í dag forláta gullhring í einni gröfinni sem verið er að rannsaka. Hringurinn er með blaðskrauti og trúlega frá síðmiðöldum.. Ekki liggur ljóst fyrir hvort hann er frá klausturtímanum (1493-1550) eða frá þeim tíma er kirkja að Skriðu var heimakirkja sýslumanna og annarra er bjuggu á Skriðuklaustri.

Innan við tíu gullhringir hafa fundist við fornleifarannsóknir hér á landi og því telst fundurinn til tíðinda. Kistan sem hringurinn fannst í var stór og vel varðveitt. Á kistulokinu var áletrun sem ekki hefur tekist að ráða í en væntanlega er það fangamark þeirrar sem í kistunni hvíldi. Sá hefur verið fyrirmenni því að gullhringir voru ekki almenningseign á miðöldum.

Gullhringurinn góði er nú kominn á sýningu þá sem er í Gunnarshúsi um klaustrið og rannsóknina. Þar geta gestir skoðað hann en einnig er leiðsögn um fornleifasvæðið alla daga.


1. júlí 2008

Gítartónleikar og sýning Anne Pesce

Næstkomandi föstudagskvöld, 4. júlí kl. 20.00, heldur Þórólfur Stefánsson gítarleikari tónleika á Skriðuklaustri. Á efnisskrá eru verk eftir bræðurna Sainz de la Maza og andalúsísk elegía eftir Mario Castelnuovo Tedesco.
Þórólfur býr og starfar í Svíþjóð og hefur komið fram sem einleikari og með hljómsveitum í Svíþjóð á Íslandi, Spáni og Norðurlöndunum. Hann hefur fengið ýmsa styrki og viðurkenningar, m.a frá Norræna menningarsjóðnum. Opið verður hjá Klausturkaffi fyrir tónleikana fyrir þá sem vilja fá sér í svanginn.

Laugardaginn 5. júlí kl. 14.00 verður opnuð sýningin Quel est mon nom? Hvað heiti ég? í gallerí Klaustri. Þar sýnir franska listakonan Anne Pesce verk sem hún hefur unnið í kjölfar dvalar í gestaíbúðinni Klaustrinu 2007 og 2004. Hún býr í Vence í Suður-Frakklandi og kennir við listaháskóla í Nice. Verk hennar hafa verið sýnd í víða í Frakklandi og Íslands seríur hennar hlotið góða dóma. Hún notar blandaða tækni við listsköpun sína en í gallerí Klaustri sýnir hún minni myndir unnar á pappír.

Laugardagskvöldið 12. júlí verður kvöldverður hjá Klausturkaffi kl. 19. Gestakokkur Guðveig Eyglóardóttir (Halastjörnunni). Eftir kvöldverð, kl. 21.00 verða síðan tónleikar með Bertu Ómarsdóttur söngur og S. Zaki Ramadhan gítar. Borðapantanir í síma 471-2992.


26. júní 2008


Stjórn Skriðuklaustursrannsókna ásamt ritstjórum greinasafnsins.

Greinasafn um Skriðuklaustur

Fyrstu eintökin af fyrsta bindi Fræðirita Gunnarsstofnunar voru afhent stjórn Skriðuklaustursrannsókna á Skriðuklaustri í dag, 25. júní. Greinasafnið ber heitið Skriðuklaustur - evrópskt miðaldaklaustur í Fljótsdal. Þrettán íslenskir fræðimenn skrifa í ritið og eru greinarnar flestar byggðar á erindum sem flutt voru á málþingi um Skriðuklaustur í nóvember 2006 og febrúar 2007. Umfjöllunarefnið er bakgrunnur og starfsemi klaustra á Íslandi með áherslu á Ágústínusarklaustrið sem starfrækt var á Skriðu í Fljótsdal frá 1493 til siðaskipta. Rýnt er í fornar heimildir og þær upplýsingar og minjar sem fornleifarannsókn á Skriðuklaustri hefur leitt í ljós.

Útgáfa þessa greinasafns er liður í verkefninu Íslensk miðaldaklaustur sem Gunnarsstofnun hefur unnið að síðustu ár með tilstyrk Kristnihátíðarsjóðs. Verkefnið snýst um að draga saman þekkingu og miðla sögu íslenskra miðaldaklaustra með aðstoð margmiðlunartækni. Greinarnar í riti þessu mynda grunninn fyrir gerð margmiðlunarefnis um Skriðuklaustur og klausturhald á Íslandi.

Greinahöfundar eru: Guðný Zoëga, Gunnar Bjarnason, Jón Ólafur Ísberg, Kristján Valur Ingólfsson, Margrét Gestsdóttir, Már Jónsson, Samson Bjarnar Harðarson, Skúli Björn Gunnarsson, Smári Ólason, Steinunn Kristjánsdóttir, Vilborg Auður Ísleifsdóttir, Þóra Kristjánsdóttir, Þórir Stephensen
Ritstjórar eru Hrafnkell Lárusson sagnfræðingur og Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur. Kápuna hannaði Guðjón Bragi Sveinsson.

Hægt er að panta bókina frá Gunnarsstofnun í síma 471-2990 eða á netfanginu This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Verðið er 3.500 kr. Hún verður einnig til sölu í helstu bókaverslunum.


10. júní 2008

Margs að njóta á Skriðuklaustri

Sumarið er svo sannarlega gengið í garð á Skriðuklaustri með fjölbreyttri starfsemi. Klausturkaffi býður upp á hádegis- og kaffihlaðborð alla daga með rjúkandi réttum. Fornleifafræðingar hafa tekið til við að grafa í klausturrústunum og veitt er leiðsögn um rannsóknarsvæðið. Í stássstofu stendur enn yfir sýning á verkum Elíasar B. Halldórssonar í samspili við texta Gyrðis Elíassonar, Sögur í mynd. Þá er í gallerí Klaustri skemmtileg ljósmyndasýning um ferðalag frönsku brúðunnar Litla.

Litli ferðaðist um Ísland árið 2004 ásamt ljósmyndaranum Séverine Thévenet. Fyrir Litla var ferðalagið mikil upplifun og eins konar endurfæðing en Litli er brúða sem fannst á háalofti í nágrenni Lyon í Frakklandi. Ljósmyndir Séverine Thévenet segja okkur frá ferðalagi Litla um Ísland. Sýningin er í samvinnu við Sendiráð Frakka á Íslandi.



19. maí 2008

Nýtt merki fyrir Skriðuklaustur og erindi um skjala- og handritasafn

Á fæðingardegi Gunnars skálds, sunnudaginn 18. maí, var kynnt nýtt merki fyrir Skriðuklaustur hannað af Zdenek Patak, grafískum hönnuði sem býr á Stöðvarfirði. Merkið er hugsað sem staðarmerki, einskonar regnhlíf yfir alla starfsemi á staðnum og verður framvegis notað á öllu kynningarefni fyrir staðinn.

Í kjölfar kynningar á merkinu sagði Örn Hrafnkelsson, forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns, frá samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar og Lbs-Hbs er varðar varðveislu á gögnum Gunnars skálds.


17. maí 2008

Nýtt merki fyrir Skriðuklaustur

Á fæðingardegi Gunnars skálds, 18. maí kl. 15.00, verður kynnt nýtt merki fyrir Skriðuklaustur hannað af Zdenek Patak. Merkið er hugsað sem staðarmerki, einskonar regnhlíf yfir alla starfsemi á staðnum. Í kjölfar kynningar á merkinu mun Örn Hrafnkelsson, forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns, segja frá samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar og Lbs-Hbs er varðar varðveislu á gögnum Gunnars skálds. Dagskráin er öllum opin meðan húsrúm leyfir.


16. maí 2008

Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri

Þann 25. apríl sl. var tilkynnt um úrslit í arkitektasamkeppni vegna gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs sem reist verður á Skriðuklaustri. Alls bárust sex tillögur í keppnina og varð tillaga Arkís hlutskörpust. Í lýsingu sinni á hugmyndafræðinni að baki verðlaunatillögunni segja arkitektarnir eftirfarandi:

Vatnajökull og nágrenni geyma mörg aðalatriði sköpunarsögu Íslands og jarðarinnar undanfarnar ármilljónir: jarðeld, jökulís, vatn og vind. Við hönnun bygginganna er vísað til þessara frumafla og er útlit þeirra og notagildi því í sterkum tengslum við umhverfið. Form byggingarinnar við Skriðuklaustur er innblásið af eilífum sköpunarmætti jökulsins; hvernig hann ýmist brýtur sér leið í gegnum landið eða hopar og sverfur nýjar, síbreytilegar náttúruperlur í landslagið. Gestastofan sækir einnig hughrif til Gunnarshúss sem er skammt undan. Notuð eru byggingarefni frá staðnum þ.e. lerki og gras á þaki og hleðslur í lóð hlaðnar úr heimafengnu grjóti.
Byggingin myndar einsskonar x-laga form. Meginás byggingarinnar, sýningar- og fræðsluás - "Skriðjökullinn"&Mac226; rís upp frá berggrunninum til beggja handa og skapar umgjörð fyrir sýningarrými og bókasafn. "Berggrunnurinn", þjónustuásinn, liggur þvert á sýningarásinn og hýsir veitingasölu og snyrtingar auk starfsmannaaðstöðu. Í gegnum þessa ása liggur upplýsingabrautin sem endar í fyrirlestraraðstöðu utanhúss.

Hægt er að skoða tillögurnar nánar á heimasíðu Arkís. Gert er ráð fyrir að skóflustunga að byggingunni verði tekin komandi haust og gestastofan verði opnuð árið 2009.

Tillögurnar sex sem bárust í keppnina verða til sýnis á Skriðuklaustri fram í júní.


8. maí 2008

SÖGUR Í MYND - Námskeið í skapandi skrifum og grafíklist

Í tengslum við verkefnið SÖGUR Í MYND standa Gunnarsstofnun og Grafíksetrið fyrir tveimur námskeiðum, annars vegar í skapandi skrifum og hins vegar í grafíklist. Á báðum námskeiðum verður lögð áhersla á að vinna út frá Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og innblástur sóttur í skáldverk Gyrðis Elíassonar og grafíkverk Elíasar B. Halldórssonar.

Skapandi skrif á Skriðuklaustri
Leiðbeinendur: Skúli Björn Gunnarsson og Andri Snær Magnason
Kennt í þremur lotum, kl. 17-21, 23. maí, 26. maí og 9. júní. Kennsla fer fram með stuttum fyrirlestrum og verklegum æfingum við að skrifa smásögur og ljóð. Markmiðið er að nemendur hafi í lokin fullunnið a.m.k. eina smásögu og eitt ljóð.
Námskeiðsgjald: 9.500 kr. með kvöldverði. Hámarksfjöldi 6 manns. Nánari upplýsingar og skráning í síma 471-2990 eða í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Grafíklist á Stöðvarfirði
Leiðbeinendur: Ríkharður Valtingojer og Sólrún Friðriksdóttir
Kennt á einni helgi, kl. 10-18, 14.-15. júní. Kennsla fer fram með stuttum fyrirlestrum og verklegum æfingum. Markmiðið er að nemendur hafi í lokin unnið nokkur grafík-verk með tréristu, dúkristu eða þurrnál.
Námskeiðsgjald: 15.000 kr. með efni.

Hámarksfjöldi 6 manns. Nánari upplýsingar og skráning í síma 475-8931/863-9080 eða í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Skráningarfrestur á bæði námskeiðin er til 20. maí.


3. maí 2008


Frá opnun á Sögur í mynd. ljósm. Andrés Skúlason.

Sögur í mynd á Skriðuklaustri

Fimmtudaginn 1. maí voru opnaðar þrjár sýningar á Skriðuklaustri sem marka upphaf sumars og er nú opið alla daga kl. 12-17. Í gallerí Klaustri sýnir Elva Hreiðarsdóttir grafíkverk og stendur sú sýning til loka maí. Á sýningu um klaustrið að Skriðu og fornleifarannsóknina hefur verið komið fyrir munum sem tengjast trúarlífi og einnig er búið að gera 12 mínútna langa mynd um uppgröftinn sem sýnd er á staðnum. Aðalsýningin sem opnuð var þann 1. maí var Sögur í mynd, sýning á myndskreytingum Elíasar B. Halldórssonar við bækur Gyrðis Elíassonar. Á sýningunni eru 24 grafíkmyndir og tvö málverk sýnd í samspili við sögur Gyrðis. Sögur í mynd stendur til 27. júlí en tengist stærra verkefni undir sama heiti sem unnið er í samstarfi við Grafíksetrið á Stöðvarfirði með tilstyrk frá Menningarráði Austurlands. Þann 10. maí verður opnuð í Grafíksetrinu sýning á eldri grafíkverkum eftir Elías.

Nokkrar svipmyndir frá Sögur í mynd


Gyrðir Elíasson við heykvísl og gúmmískó. Ljósm. Andrés Skúlason.


Sigurlaugur Elíasson ásamt frænkum sínum. Ljósm. Andrés Skúlason.


28. apríl 2008


Sögur í mynd, franskt vor og fleiri sýningar

Þá er sumarið komið á Skriðuklaustri og frá og með 1. maí verður opið alla daga kl. 12-17. Fimmtudaginn 1. maí kl. 14 verður opnuð stór sýning á grafíkverkum Elíasar B. Halldórssonar í samspili við sögur Gyrðis Elíassonar í stássstofunni á Klaustri. Á sýningunni eru fyrst og fremst myndskreytingar Elíasar sem birst hafa í bókum Gyrðis. Sýningin er liður í verkefninu Sögur í mynd sem er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar og Grafíksetursins á Stöðvarfirði og nýtur styrks frá Menningarráði Austurlands. Þann 10. maí verður opnuð sýning á eldri grafíkmyndum Elíasar í Grafíksetrinu. Annar hluti verkefnisins snýst síðan um námskeið í skapandi skrifum og grafíkskreytingum út frá Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar.

Á fimmtudaginn verða einnig opnaðar fleiri sýningar, m.a. á nýjum munum úr uppgreftrinum á klaustrinu og í Gallerí Klaustri verða sýnd verk eftir Elvu J. Th. Hreiðarsdóttur.

heldur tónleika. Kvöldverðurinn hefst kl. 19.00 en tónleikarnir hefjast kl. 20.30. Borðapantanir í kvöldverðinn eru í síma 471-2992 eða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


14. apríl 2008

Lomberslagurinn við Húnvetninga

Laugardaginn 12. apríl háðu Austfirðingar lomberslag við Húnvetning að Öngulsstöðum í Eyjafirði. Mættu Húnvetningar tvöfalt fjölmennari og spilað var á tíu borðum frá hádegi og fram á kvöld. Spiluð voru vel á annað þúsund spil og fóru leikar þannig að Austfirðingar töpuðu heldur minna í heildarsamtölu dagsins. Húnvetningar voru hins vegar með hærri plús ef að aðeins voru teknir með þeir sem náðu að halda sér yfir núllinu yfir daginn. Í lok dagsins lá því ekki alveg ljóst fyrir hvernig leikar hefðu farið þar sem liðsmunurinn skekkti alla útreikninga og gerði þá umdeildanlega. Sannmæltust menn um að jafnt hefði verið á með liðum.

Þetta var í þriðja sinn sem þessir tveir hópar mættust og mikið fjör að venju. Spilað var eftir húnvetnskum reglum fyrra hluta dagsins og austfirskum seinnipartinn. Áður en haldið var heim var sammælum bundist að halda áfram þessum árlega viðburði.

Nokkrar svipmyndir frá lomberslagnum á Öngulsstöðum.


2. apríl 2008

Lokahelgin Trjálífs og 700.is

Seinni sýningardagur á heimildamyndum 700.is á Skriðuklaustri verður á laugardaginn kl. 13-17. Aðgangur er ókeypis. Röð myndanna er þessi:

Þá verður Trjálíf, sýning Handverks og hönnunar, opin bæði laugardag og sunnudag kl. 13-17, en þetta er síðasta sýningarhelgi hennar. Aðgangur er ókeypis á sýninguna. Að sjálfsögðu verður kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi báða dagana.


18. mars 2008

Trjálíf og Sjö orð Krists á krossinum

Sýningin Trjálíf verður opin kl. 13-17 á föstudaginn langa, laugardag og annan í páskum. Aðgangur ókeypis. Á föstudaginn langa kl. 14.000 verður klukkustundarlöng dagskrá helguð Hallgrími Péturssyni sálmaskáldi á vegum sóknarprestanna á Héraði undir yfirskriftinni Sjö orð Krists á krossinum.

Kaffihlaðborð verður hjá Klausturkaffi sömu daga.


15. mars 2008

TRJÁLÍF - sýning Handverks og hönnunar

Í dag, laugardaginn 15. mars kl. 14 verður opnuð á Skriðuklaustri sýningin TRJÁLÍF. Sýningin er samvinnuverkefni Handverks og hönnunar og Gunnarsstofnunar. Á sýningunni eru fólk og fjölbreytt dýr unnin úr tré. Sýnendur eru: Aðalheiður Eysteinsdóttir, Bjarni Þór Kristjánsson, Bragi Baldursson, Helgi Björnsson, Ragnhildur Magnúsdóttir, Reynir Sveinsson, Sigurbjörg Jónsdóttir og Sigurður K. Eiríksson. Sýningin mun standa fram til 6. apríl og verður opin sem hér segir:

  • Laugard. 15. mars kl. 14-17.
  • Sunnud. 16. mars kl. 13-17.
  • Föstudaginn langa 21. mars kl. 13-17.
  • Laugard. 22. mars kl. 13-17.
  • Annan í páskum 24. mars kl. 13-17.
  • Laugard. 29. mars kl. 13-17.
  • Sunnud. 30. mars kl. 13-17.
  • Laugard. 5. mars kl. 13-17.
  • Sunnud. 6. mars kl. 13-17.

Að sjálfsögðu er opið í kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi á sama tíma og því tilvalið að bregða sér í bíltúr í Fljótsdalinn.

Fleiri myndir frá sýningunni:


6. mars 2008


Frá sýningunni Gunnar og Danmörk í Þjóðarbókhlöðu. Ljósm. Helgi Bragason.

Sýningaropnun og afhending á gögnum skáldsins

Miðvikudaginn 5. mars opnaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sýninguna Gunnar Gunnarsson og Danmörk í Þjóðarbókhlöðu. Á sýningunni er fjallað um fyrstu 50 árin í lífi Gunnars og dregin út sex þau viðburðaríkustu í máli og myndum. Jafnframt eru sýnd handrit, bréf, bækur og ýmis önnur gögn úr fórum skáldsins.


Gunnar Björn Gunnarsson afhendir landsbókaverði dagbók
frá Klausturárunum sem kom nýverið í leitirnar. Ljósm. Helgi Bragason.

Við sama tækifæri afhenti fjölskylda skáldsins síðustu gögn Gunnars og undirritaði afhendarsamning vegna þeirra handrita, bréfa og skjala sem á síðustu þremur árum hafa verið flokkuð og skráð og telja nú 227 öskjur í handritadeild safnsins. Var það verkefni samstarf Gunnarsstofnunar og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafns og naut stuðnings menntamálaráðherra.


Skúli Björn Gunnarson og Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir
undirrituðu samstarfssamning. Ljósm. Helgi Bragason.

Forstöðumaður Gunnarsstofnunar og landsbókavörður notuðu tækifærið og endurnýjuðu samstarfssamning á milli stofnana sem miðar að byggja upp gott heimildasafn um skáldið og bæta þannig aðgengi að gögnum er tilheyra eða tengjast Gunnari Gunnarssyni með skráningu og viðeigandi varðveislu. Í opnunarávarpi menntamálaráðherra kom fram að ráðherrann hefði ákveðið að styrkja þetta samstarf áfram með fjárframlagi næstu tvö árin.


3. mars 2008


Kápa á útgáfu Bjarts á Svartfugli árið 2007.

Svartfugl í nýrri þýðingu í Þýskalandi

Gunnarsstofnun, sem fer með höfundarrétt Gunnars Gunnarssonar, hefur gengið frá útgáfusamningi við Reclam forlagið í Þýskalandi um útgáfu á Svartfugli í nýrri heimsbókmenntaröð forlagsins. Sagan verður þýdd að nýju af Karl-Ludwig Wetzig sem meðal annars hefur þýtt á þýsku bækur Jóns Kalmans Stefánssonar, Hallgríms Helgasonar og Þorvaldar Þorsteinssonar, og mun koma út haustið 2009.

Reclam er eitt af þekktari bókaforlögum Þýskalands og hefur frá 1936 gefið reglulega út Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Síðast kom Aðventa út 2006 hjá Reclam í vandaðri útgáfu með inngangi eftir Jón Kalman Stefánsson.

Svartfugl kom fyrst út á þýsku 1930, ári eftir að sagan kom út í Danmörku, en hefur ekki komið út í Þýskalandi síðan um miðja síðustu öld. Síðast var hún gefin út á erlendri tungu í hjá Arléa útgáfunni í Frakklandi 1992.

Sú bókaröð sem Svartfugl kemur út í hjá Reclam á næsta ári er ný og vönduð og skipar Gunnar Gunnarsson sér þar á bekk með Oscar Wilde, Gilgamesch, John Milton, Joseph Conrad, Dante, Gustave Flaubert og Charles Dickens, svo nokkrir séu nefndir.

Svartfugl kom síðast út á íslensku í kiljuformi hjá Bjarti árið 2007 og hefur sú útgáfa notið mikilla vinsælda. Gunnar sækir söguefnið í hin frægu Sjöundármorð og dregur upp skarpa mynd af íslensku samfélagi um aldamótin 1800 í magnaðri sögu sem er með hans bestu verkum.


3. mars 2008


Guðjón Daníelsson og Björn Magni Björnsson glaðbeittir við spilaborðið.

Góður lomberdagur

Ágæt mæting var á lomberdaginn á Skriðuklaustri sl. laugardag. Spilað var af krafti frá kl. 14 og fram yfir miðnætti líkt og venjan er. Spilamenn voru á ýmsum aldri og sá elsti kominn vel á tíræðisaldur. Kátt var á hjalla og þegar stig voru gerð upp í lok dags kom í ljós að flestir voru í mínus en Matthías Þorvaldsson, einn af yngri spilurunum stóð uppi með flest stig.

Sýning um Gunnar Gunnarsson í Þjóðarbókhlöðu

Miðvikudaginn 5. mars opnar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sýningu um Gunnar Gunnarsson og Danmörku í Þjóðarbókhlöðunni. Á sýningunni eru í máli og myndum rakin viðburðarík ár í lífi Gunnars frá fæðingu og þar til hann snýr aftur heim til Íslands 1939. Jafnframt eru sýnd handrit, bréf og ýmis gögn og munir úr fórum skáldsins. Sýningin stendur til 30. apríl.


25. febúar 2008

Lomberdagurinn 1. mars

Hinn árlegi lomberdagur á Skriðuklaustri verður laugardaginn 1. mars.

Spilamennskan hefst kl. 13.30 og er mælt með því að byrjendur mæti þá strax. Vanir spilamenn geta hins vegar bæst í hópinn hvenær sem er dagsins. Sama fyrirkomulag verður á deginum og vanalega, spilað af krafti og kæti milli mála langt fram á kvöld. Þátttökugjald er sem hér segir:

• Spadda (kaffi, kökuhlaðborð og kvöldverður) kr. 3.900
• Manilía (kvöldverður og kaffi) kr. 3.000
• Basti (kökuhlaðborð og kaffi) kr. 1.200.

Ekki er verra að láta vita um þátttöku á lomberdeginum í síma 471-2990.


20. febúar 2008

Konudagskaffi og erindi Anik See
Sunnudaginn 25. febrúar, á konudaginn, verður að venju konudagskaffi hjá Klausturkaffi og fróðlegt erindi í síðdeginu. Opið er frá kl. 14-17 og kl. 15.00 mun kanadíska skáldkonan Anik See, sem nú dvelur í gestaíbúðinni Klaustrinu, flytja erindi um verk sín. Hún hefur m.a. skrifað líflegar ferðabækur sem ekki hvað síst snúast um mat og hafa hlotið mikið lof. Hægt er að skoða verk hennar inni á amazon.com. Ókeypis er inn á fyrirlesturinn.

Lomber

Lomber verður spilaður á föstudagskvöldið, 22. febrúar og síðan er rétt að menn fari að búa sig undir hinn árlega lomberdag sem verður laugardaginn 1. mars.

Spilamennskan hefst kl. 13.30 og er mælt með því að byrjendur mæti þá strax. Vanir spilamenn geta hins vegar bæst í hópinn hvenær sem er dagsins. Sama fyrirkomulag verður á deginum og vanalega, spilað af krafti og kæti milli mála langt fram á kvöld. Þátttökugjald er sem hér segir:

• Spadda (kaffi, kökuhlaðborð og kvöldverður) kr. 3.900
• Manilía (kvöldverður og kaffi) kr. 3.000
• Basti (kökuhlaðborð og kaffi) kr. 1.200.

Ekki er verra að láta vita um þátttöku á lomberdeginum í síma 471-2990.


22. janúar 2008

Sjálfseignarstofnun formlega tekin til starfa
Gunnarsstofnun varð þann 1. janúar sl. formlega að sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Skipulagsskráin var undirrituð á fæðingardegi Gunnars skálds 18. maí á síðasta ári en ákveðið að breytingin tæki gildi um áramót.

Stofnaðilar að sjálfseignarstofnuninni eru menntamálaráðuneytið, Háskóli Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Rithöfundasamband Íslands og Þróunarfélag Austurlands. Þessir aðilar skipuðu sína fulltrúa í stjórn stofnunarinnar á síðasta ári og er stjórn Gunnarsstofnunar nú þannig skipuð:

Gunnar Björn Gunnarsson skipaður af menntamálaráðuneyti og kosinn formaður
Sigríður Sigmundsdóttir skipuð af Þróunarfélagi Austurlands og kosin varaformaður
Margrét Jónsdóttir skipuð af Háskóla Íslands
Vésteinn Ólason skipaður af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Andri Snær Magnason skipaður af Rithöfundasambandi Íslands

Varamenn eru í sömu röð:
Gunnar Martin Úlfsson
Enok Jóhannsson
Hjalti Hugason
Svanhildur Óskarsdóttir
Davíð Stefánsson