Grýla var heldur ófrýnileg.

2. desember 2002

Grýlugleði og Grýluljóð

Grýlugleði var haldin að Skriðuklaustri þriðja árið í röð sl. sunnudag. Hana sóttu ungir sem aldnir og þar á meðal álfar úr Snæfelli.

Síðan vildi svo óheppilega til að hjónakornin Grýla og Leppalúði litu við í leit að matarbita og ollu skelfingu meðal viðstaddra.

Á Grýlugleðinni voru afhent bókaverðlaun fyrir bestu Grýluljóðin er bárust í samkeppni sem Gunnarsstofnun efndi til meðal austfirskra barna í 1.-7. bekk grunnskóla. Alls bárust um 260 ljóð en dómnefnd valdi fjögur til verðlauna. Verðlaunaskáldin eru: Hrefna Ingólfsdóttir í 7. bekk Grunnskólanum á Breiðdalsvík, Ásta Steinunn Eríksdóttir í 6. bekk Hafnarskóla, Steinunn Rut Friðriksdóttir í 4. bekk Egilsstaðaskóla og Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir í 7. bekk Fellaskóla.


Verðlaunahafarnir: Hrefna Ingólfsdóttir, Steinunn Rut Friðriksdóttir
og Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir. Á myndina vantar Ástu Steinunni Eríksdóttur.

Verðlaunaljóðin:

  • Grýluljóð
    • Grýla gamla gekk til byggða um jól
    • í leit að óþekkum börnum
    • sem léku út um trissur
    • hrekkjótt og vond.
    • En nú er Grýla orðin svo gömul að hún
    • hefur ekki hina gömlu grimmd
    • til að taka fleiri börn
    • og hún gamla Grýla á svo mörg börn sjálf
    • að hún hefur ekki tölu á þeim.
    • Kisi hennar, jólakötturinn,
    • stalst oft til byggða
    • að hrella börnin smá
    • og sagt var að kisi sá mundi taka þau börn
    • og éta sem ekki fengu ný föt fyrir jólin
    • en aldrei hef ég heyrt þess getið
    • að jólakötturinn hafi étið nokkurn krakka
    • né að Grýla hafi tekið nokkurt
    • óþekkt barn.
            • Hrefna Ingólfsdóttir í 7. bekk Grunnskólans á Breiðdalsvík.
  • Grýla
    • Hún fer um fjöll og firnindi
    • fílar öll heimsins leiðindi.
    • Hún étur börn
    • heil ósköp öll
    • og vill engin nútíma þægindi
            • Ásta Steinunn Eiríksdóttir í 6. bekk Hafnarskóla.
  • Grýla sýður börn í potti
    • Grýla kallar á börnin sín
    • sýnast þau öll sæt og fín.
    • Leppur, Skreppur og Leiðindaskjóða,
    • nú fer ég brátt að sjóða.
    • Ykkur nú ég sendi
    • til að ná í bál og brenndi.
    • Lápur, Skrápur, Völustallur og Bóla,
    • nú fer ég að sjóða til jóla.
    • Ykkur ég sendi að Hamri
    • til að ná í Skúm og Gamri.
    • Það eru mannabörn smá,
    • jamm, namm og já!
    • Leppur, Skreppur og Leiðindaskjóða,
    • náðu nú í börn til að sjóða til jóla.
    • Þegar heim var komið
    • var Grýla ósköp svöng,
    • tók börnin upp með töng.
    • Kveikti undir potti,
    • söng við og glotti.
    • Nú fé ég börn að borða,
    • tók hún svo til orða.
    • Nú er best að ég segi ekki meira
    • og þá var það ekki fleira.
            • Steinunn Rut Friðriksdóttir í 4. bekk Egilsstaðaskóla.
  • Grýla
    • Grýla voða gömul er,
    • grimm á öllum jólum,
    • ófríð, heimsk og beinaber,
    • hræðileg herfa Grýla er.
    • Hún er ekki guðhrædd, nei!
    • Trúir á trunt og tröllin.
    • Skít og skófir étur, svei!
    • Býr hún upp við fjöllin.
            • Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir í 7. bekk Fellaskóla.

6. nóvember 2002

Samkeppni um Grýluljóð
- fyrir austfirsk grunnskólabörn

Í tilefni af árlegri Grýlugleði í byrjun aðventu að Skriðuklaustri efnir Gunnarsstofnun til samkeppni um Grýluljóð meðal grunnskólabarna á Austurlandi. Keppnin er fyrir nemendur í 1. - 7. bekk.

Hver nemandi má senda inn eitt frumort ljóð um Grýlu. Vegleg bókaverðlaun verða veitt fyrir bestu Grýluljóðin og úrslit kynnt á Grýlugleði á Skriðuklaustri 1. desember nk. Þar verða öll innsend ljóð til sýnis.

Dómnefnd skipa: Hákon Aðalsteinsson, Steinunn Ásmundsdóttir og Skúli Björn Gunnarsson.



22. nóvember 2002


Kvöldvaka hinna myrku afla

Gunnarsstofnun stendur fyrir kvöldvöku hinna myrku afla föstudagskvöldið 22. nóvember nk. á Dögum myrkurs. Á kvöldvökunni verður eitt og annað sem tengist myrkraverkum. Rýnt í Píslarsögu Jóns þumlungs, fræðsla um galdra og drauga, kveðist á og sungið. Þá verður kennt hvernig vekja á upp drauga og einnig hvernig kveða á þá niður. Kvöldvakan hefst kl. 20.30. Aðgangseyrir er kr. 1.300, kaffi og meðlæti innifalið.



4. nóvember 2002

Sýning Handverks og hönnunar
- um 200 gestir komu á sýninguna

Úrvalsýningu Handverks og hönnunar á 50 munum frá 25 aðilum lauk um 4. nóvember. Á sýninguna komu liðlega 200 gestir, þar á meðal nemendur úr Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað og úr listnámi við Menntaskólann á Egilsstöðum.

Frá síðasta sunnudegi.

27. ágúst 2002

7500 gestir á Klaustri í sumar
- opið næstu tvær helgar

Síðasti dagur sumaropnunar var sunnudaginn 25. ágúst. Þá höfðu um 7500 gestir komið í Skriðuklaustur í sumar og voru gestir á þessum síðasta degi nálægt 200 talsins. Er um að ræða um 20% fjölgun gesta frá fyrra ári. Opið verður næstu tvær helgar milli kl. 13 og 17 en lokað virka daga.

Á síðustu sumarhelginni var einnig efnt til töðugjalda með steikarhlaðborði hjá Klausturkaffi. Var vel mætt í það og hlýddu menn á fjöruga tóna Kaleidh bandsins seyðfirska bæði á undan og eftir matnum.



8. ágúst 2002

Austfirsku meistararnir farnir á Höfn
- útilegumennirnir að koma í hús

Stóru myndlistarsýningu sumarsins er nú lokið á Skriðuklaustri. Verk austfirsku meistaranna eru farin á Höfn í Hornafirði þar sem þau verða hengd upp í Pakkhúsinu og verður sú sýning opnuð um helgina.

Næstkomandi laugardag, 10. ágúst, verður hins vegar opnuð síðsumarssýning Gunnarsstofnunar að Skriðuklaustri. Hún ber að þessu sinni heitið Útlagar og útilegumenn og er hluti af þjóðfræðiverkefni sem stofnunin vinnur með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Menningarborgarsjóði.

Þá er rétt að benda á að í Gunnarshúsi eru nú til sýnis margir þeirra muna sem fundist hafa við uppgröftinn á Skriðuklaustri í sumar.



30. júlí 2002

Metaðsókn á fornleifadegi

Sunnudaginn 29. júlí efndu Skriðuklaustursrannsóknir og Þjóðminjasafn Íslands til fornleifadags á Skriðuklaustri. Veitt var leiðsögn á rannsóknarsvæðinu á Kirkjutúni neðan Gunnarshúss eftir hádegi og komu um 150 manns til að fræðast um uppgröftinn.

Sunnudagurinn var jafnframt einn stærsti aðsóknardagur frá upphafi á Skriðuklaustri. Um 250 gestir sóttu staðinn heim og nutu sýninga, veitinga og leiðsagnar um hús skáldsins.



15. júlí 2002

Óðalsherra eða galeiðuþræll

Sunnudaginn 14. júlí hélt Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur erindi um Sögu Borgarættarinnar undir yfirskriftinni "Óðalsherra eða galeiðuþræll".

Í fyrirlestrinum fjallaði Jón Yngvi m.a. um hvernig þversagnakennd afstaða aðalsöguhetjunnar til föðurlands síns og föðurleifðar verður valdur að persónulegum klofningi hans og þeirra átaka innan ættarinnar sem eru meginefni sögunnar. Jafnframt kom fram að danskir gagnrýnendur hefðu á sínum tíma talið fullmikið af atburðum sögunni miðað við lengd hennar en þrátt fyrir það náði hún miklum vinsældum og var m.a. gefin í fermingargjafir í Danmörku í vönduðu skinnbandi um margra áraskeið.

Jón Yngvi Jóhannsson er um þessar mundir að vinna að doktorsritgerð um íslenska rithöfunda í Danmörku, þ. á m. Gunnar Gunnarsson.

Nokkrir gesta.


7. júlí 2002

Vellukkaðir sumartónleikar

Sunnudaginn 7. júlí voru haldnir sumartónleikar á Skriðuklaustri þar sem Hallfríður Ólafsdóttir og Ármann Helgason léku verk eftir ýmis tónskáld á flautu og klarinett. Tónleikagestir voru ánægðir með flutninginn og höfðu á orði að sérstaklega hefði verið gaman að hlýða á þetta þar sem slík verk og slíkan flutning bæri ekki fyrir menn á hverjum degi.



5. júní 2002

Nýskipuð stjórn Gunnarsstofnunar


F.v. Helgi Gíslason, Hrafnkell A. Jónsson, Sigríður Sigmundsdóttir, Gunnar Björn Gunnarsson og Stefán Snæbjörnsson.

Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra hefur skipað stjórn Stofnunar Gunnars Gunnarssonar til þriggja ára frá og með 1. júní sl. Fimm sitja í aðalstjórn og fjórir eru skipaðir til vara.

Aðalmenn eru:
Helgi Gíslason formaður (án tilnefningar)
Gunnar Björn Gunnarsson varaform. (án tilnefningar)
Hrafnkell A. Jónsson (tilnefndur af Safnastofnun Austurlands)
Sigríður Sigmundsdóttir (tilnefnd af Atvinnuþróunarfélagi Austurlands)
Stefán Snæbjörnsson (án tilnefningar).

Varamenn eru:
Hilmar Gunnlaugsson (án tilnefningar)
Franzisca Gunnarsdóttir (án tilnefningar)
Guðný Zoëga (tilnefnd af Safnastofnun Austurlands)
Óðinn Gunnar Óðinsson (tilnefndur af Atvinnuþróunarfélagi Austurl.)


1. júní 2002

"Lost in sveit"
- stórkostlegir tónleikar að Skriðuklaustri

Páll Ívan og Charles (t.h.)

Í dag voru einstakir tónleikar að Skriðuklaustri undir yfirskriftinni "Lost in sveit". Frumflutt var verk eftir Charles Ross tónskáld, sem samið var við vatnslitamyndir Jóns Guðmundssonar fjöllistamanns, en þær voru sýndar samhliða tónleikunum. Jafnframt var flutt annað tónverk eftir Charles í fjórum þáttum. Flytjendur voru auk þeirra tveggja: Suncana Slamnig, Páll Ívan og Annegret Unger. Tónleikarnir voru styrktir af Menningarráði Austurlands. Þeir verða fluttir aftur á morgun sunnudag kl. 14.30.


Annegret, Jón Guðmundsson og Páll Ívan.


Suncana Slamnig.


18. maí 2002

Afhending bókasafns, samstarf við Landsbókasafn og nýr Gunnarsvefur

.
Franzisca Gunnarsdóttir, barnabarn skáldsins, Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, og Sigrún Klara Hannesdóttir, landsbókavörður, undirrita viljayfirlýsinguna

Í dag, 18. maí 2002, þegar 113 ár voru liðin frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar, var mikil viðhöfn að Skriðuklaustri. Tilefnin voru þrjú.

Í fyrsta lagi afhentu börn Helga Gíslasonar og Gróu Björnsdóttur á Helgafelli bókasafn föður síns sem lést árið 2000. Safn það er gefið var Gunnarsstofnun að Skriðuklaustri telur á þriðja þúsund bindi. Í því eru fornsögur, tímarit, ljóðabækur, fræðirit, 20. aldar bókmenntir, þjóðsagnasöfn og ýmislegt fleira sem á eftir að nýtast fræðaiðkendum á Skriðuklaustri í framtíðinni. Björn Helgason afhenti bókasafnið formlega og var afhendingin innsigluð með áletruðum steini er komið verður fyrir á fallegri hillu sem Helgi átti, útskorinni af Ríkarði Jónssyni

.
Börn hjónanna Helga Gíslasonar og Gróu Björnsdóttur á Helgafelli afhentu bókagjöfina (f.v.) Gísli, Hólmfríður og Björn.

Annar liður í dagskrá afmælisdagsins að Skriðuklaustri var undirritun viljayfirlýsingar um samstarf milli Gunnarsstofnunar og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Hann undirrituðu Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður og Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, auk þess sem Franzisca Gunnarsdóttir og Gunnar Björn Gunnarsson staðfestu samþykki afkomenda fyrir yfirlýsingunni. Í fyrstu grein viljayfirlýsingarinnar segir:

"Tilgangurinn með viljayfirlýsingu þessari er að stuðla að ítarlegri skráningu og viðeigandi varðveislu á myndum, bókum, skrifum, handritum, bréfum, blaðaúrklippum og öðrum þeim gögnum er varða Gunnar Gunnarsson. Markmiðið er að á næstu fimm árum verði til öflugur gagnabanki um skáldið, aðgengilegur á Netinu, með ítarlegum heimildalistum, ljósmyndum, úrklippum, greinum og skrám yfir bækur, greinar, handrit og bréfasöfn."

Samningsaðilar gefa sér eitt ár til að koma á samstarfi um verkefnin og munu sameiginlega leita fjármagns til að standa straum af kostnaði við þau.

Þriðji liður dagskrárinnar var síðan opnun vefs á fimm tungumálum um Gunnar Gunnarsson rithöfund. Vefinn opnaði barnabarn skáldsins, Franzisca Gunnarsdóttir.

Gunnar Björn Gunnarsson ásamt móður sinni, Franziscu Gunnarsdóttur. Lengst til hægri er Indriði Gíslason, bróðir Helga Gíslasonar sem átti bókasafn það er gefið var Gunnarsstofnun.


17. apríl 2002

LAXNESSVAKA Í VALASKJÁLF

Gunnarsstofnun, Leikfélag Fljótsdalshéraðs og Bókasafn Héraðsbúa efna til Laxnessvöku í Valaskjálf föstudagskvöldið 26. apríl kl. 20. Flutt verður dagskrá sem samanstendur af ljóðalestri, söng, leiklestri og upplestri, og ferðast gegnum flest helstu verk Nóbelskáldsins.


17. apríl 2002

BÍRÆFIN LYGI, BULL OG VITLEYSA
- fyrirlestur Skúla Björns um Halldór Laxness

Í tilefni af aldarafmæli Halldórs Laxness þriðjudaginn 23. apríl nk. mun Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, halda fyrirlestur um handrit hans, bréf og minniskompur sunnudaginn 21. apríl kl. 17. Skúli Björn vann við flokkun á bréfum Halldórs og handritum á árunum á árunum 1996-97 og flutti þennan fyrirlestur um hvað þar væri forvitnilegt að finna í Norræna húsinu á 95 ára árstíð skáldsins.


17. apríl 2002

VEFLIST AÐ VORI
- sýning Fríðu S. Kristinsdóttur

Fríða S. Kristinsdóttir vefari sýnir listvefnað að Skriðuklaustri 20.-28. apríl nk. Sýningin verður opin kl. 14-17 laugardaga og sunnudaga og á sama tíma sumardaginn fyrsta. Fríða dvelst um þessar mundir í gestaíbúðinni Klaustrinu og mun sýna bæði nýja og eldri muni unna með ýmiskonar tækni.


15. apríl 2002

PÁLL ÓLAFSSON Á KLAUSTURREGLUSTUND
- Þórarinn Hjartarson flutti dagskrá um Pál

Sunnudaginn 14. apríl var Klausturreglustund að Skriðuklaustri. Á hana var boðið þeim sem eru félagar í Klausturreglunni og mætti um helmingur þeirra. Í boði var klukkustundarlöng dagskrá með Þórarni Hjartarsyni um austfirska skáldið Pál Ólafsson. Fræddi Þórarinn áheyrendur með orðum, söng og kveðanda.


31. mars 2002

ERINDI UM TYRKJARÁNIÐ
- Breiðdalsvík og Skriðuklaustri

Þorsteinn Helgason sagnfræðingurheldur erindi um Tyrkjaránið á Hótel Bláfelli Breiðdalsvík þriðjudagskvöldið 2. apríl kl. 20.00 og að Skriðuklaustri laugardaginn 6. apríl kl. 15.00.

Þorsteinn hefur undanfarin ár unnið að rannsóknum á heimildum um Tyrkjaránið og á næstunni verður sýnd í Sjónvarpinu heimildamynd í þremur hlutum byggð á þeim. Í erindum sínum mun Þorsteinn m.a. sýna brot úr þessari mynd en í henni er t.a.m. rætt við nokkra Austfirðinga um þessa atburði 17. aldar.


22. mars 2002

LJÓÐAVAKA Í DYMBILVIKU

Miðvikudagskvöldið 26. mars munu Gunnarsstofnun og Félag ljóðaunnenda á Austurlandi standa fyrir ljóðavöku á Skriðuklaustri. Þar munu austfirsk skáld lesa úr nýju efni, gluggað verður í eldri kveðskap og sungin kvæði, ný og gömul.

Ljóðavakan hefst klukkan 20.00. Aðgangseyrir er kr. 1.000 og innifalið í því eru kaffi og kökur.


5. mars 2002

Skriðuklaustur:
BYSSUR, VODKI OG VAMPÍRUR

Laugardaginn 9. mars flytur Bjargey Ólafsdóttir myndlistarmaður erindi á Skriðuklaustri undir yfirskriftinni "Byssur, vodki og vampírur". Hún mun fjalla um listsköpun sína undanfarin ár, sýna litskyggnur og stuttmyndir og segja frá verkum sem hún hefur gert eða tekið þátt í.

Bjargey Ólafsdóttir lagði stund á blandað listnám (kvikmyndagerð, ljósmyndun, málun og fjöltækni) á Íslandi, Spáni, Finnlandi og Svíþjóð. Síðustu tvö ár hefur hún farið víða um lönd með verk sín og tók meðal annars þátt í dagskránni Ljósin í norðri, sem var hluti af Menningarborginni 2000, með "Ég veiddi vampíru í Svíþjóð". Hún dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni Klaustrinu á Skriðuklaustri.

Erindi Bjargeyjar hefst kl. 17.00 nk. laugardag. Aðgangur er kr. 300. Klausturkaffi verður opið á undan fyrirlestrinum.



2. mars laugardagur kl. 14.00
LOMBER-DAGUR

Hinn árlegi Lomber-dagur á Skriðuklaustri verður haldinn laugardaginn 2. mars og mun hefjast kl. 14.00. Byrjað verður á að fara yfir undirstöðuatriðin í spilinu en síðan verður tekið til við alvöruspilamennsku sem staðið getur fram á rauða nótt. Lomber-dagurinn er jafnt fyrir byrjendur sem gamalreynda spilamenn.

Þátttökugjald er kr. 3.300. Innifalið er ritlingur um Lomber, síðdegiskaffi og tveggja rétta kvöldverður.

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður og því er best að skrá sig sem fyrst. Skráning og nánari upplýsingar eru í síma 471-2990. Einnig er hægt að senda skráningu í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


14. febrúar 2002

Einar Már Guðmundsson rithöfundur segir frá
- upplestur og spjall


Sunnudaginn 17. febrúar
nk. mun Einar Már Guðmundsson rithöfundur halda sögustund á
Skriðuklaustri. Þar mun hann segja gefa fólki innsýn í verk sín með upplestri og spjalli. Einar Már
dvelst um þessar mundir í gestaíbúð Gunnarsstofnunar.

Sögustundin hefst kl. 15.00 og aðgangseyrir er kr. 400. Klausturkaffi verður með opna veitingastofu
eftir spjallið.

Ýmislegt fleira er síðan á döfinni eins og fyrirlestur um stuttmyndir, erindi um Tyrkjaránið, vefnaðarsýning og dagskrá í tilefni 100 ára afmælis Halldórs Laxness. Nánar um það síðar.


15. janúar 2002

Nýr menningarfulltrúi kominn til starfa

Signý Ormarsdóttir hefur nú tekið til starfa við að þjóna menningarstarfi í fjórðungnum öllum samkvæmt þjónustusamningi Menningarráðs Austurlands við Gunnarsstofnun. Hægt er að ná í Signýju í GSM-síma 860-2983 , 471-3230 eða senda henni tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur