Þú ert hér: Home Fornleifar Rannsóknin Fornleifarannsókn
  • Increase font size
  • Default font size
  • Decrease font size
Leit

Skriðuklaustur

Icelandic(IS)Deutsch (DE-CH-AT)French (Fr)English (United Kingdom)

Fornleifarannsókn

Prenta út

 

Túlkun fornleifafræðinga á rústunum að Skriðuklaustri.Upphaf fornleifarannsóknarinnar á Skriðuklaustri má rekja til forkönnunar sem fram fór á staðnum sumarið 2000. Með henni tókst að staðsetja og meta umfang rústa klaustursins en þær voru þá löngu gleymdar og horfnar utan kirkjutóttar og kirkjugarðs. Í ljós kom að heildargrunnflötur hinna týndu bygginga klaustursins var um 1200 fermetrar. Uppgröftur á rústunum hófst síðan í júní 2002.

Markmið rannsóknarinnar

Markmið fornleifarannsóknarinnar er að greina grunnform bygginga klaustursins og bera það saman við grunnform annarra klausturbygginga í Evrópu úr kaþólskri tíð. Rannsóknin beinist einnig að lífinu á staðnum meðan klaustrið stóð.

Klausturbyggingarnar

Útlínur klausturrústanna.Byggingarefni klaustursins var einkum torf og grjót. Grjótið hefur að líkindum verið sótt í hlíðina ofan við bæjarstæðið á Skriðu og velt niður á klausturstæðið en reiðingur sóttur niður á Klausturnes. Veggir hafa yfirleitt verið timburklæddir. Í sumum herbergjum klaustursins, kapítula og kirkju, hafa verið timburgólf en í öðrum vistarverum hellulögn eða moldargólf. Timbrið sem notað var í innviði klaustursins var rekaviður, ýmist fura, greni eða lerki. Kistur þær sem grafnar hafa verið fram í klausturgarðinum hafa sömuleiðis verið smíðaðar úr rekaviði og í þeim eru járnnaglar, trúlega úr smiðju staðarins.

Byggingarformið

Grunnmynd af evrópsku klaustri.Skipulag bygginganna á Skriðuklaustri líkist mjög því sem tíðkaðist í evrópskum klaustrum á síðmiðöldum. Ákveðnar reglur giltu um hvaða rými væru klaustrunum og hvaða hlutverki hvert herbergi þjónaði. Miðaldaklaustur voru lokaðar byggingar sem skiptust m.a. í: kirkju (ecclecia), samkomusal (capitulum), borðsal (refectorium), eldhús (cucina), svefnskála (dormitorium), hitunarhús (calefactorium) og samtalsherbergi (parlatorium) sem byggð voru sem ein heild í kringum skýrt afmarkaðan klausturgarð sem gjarnan hafði brunn fyrir miðju. Í garðinum fór fram ræktun að hluta en þar var einnig jarðað sem og í kirkju og þeim rýmum sem næst lágu kirkju. Utan við klausturbygginguna voru veraldlegar byggingar, s.s. klausturbæir og sérstök hús fyrir sjúklinga og próventufólk.

Upplýsingar um starfsemi og byggingar

Gröf í kirkjugarðinum.Fornleifarannsóknin á Skriðuklaustri hefur þegar skilað  veigamiklum upplýsingum sem ekki voru þekktar áður um starfsemi og byggingar kaþólskra miðaldaklaustra á Íslandi. Komið hefur í ljós að hlutverk Skriðuklausturs var víðtækara og umsvifameira en áður var talið. Byggingarlag klaustursins var óþekkt áður en rannsóknir hófust og sú kenning almenn að íslensk klaustur hafi verið lítil að umfangi og að byggingar þeirra hafi ekki skilið sig að marki frá hefðbundnum bæjarhúsum á stærri býlum.

Fjölþætt hlutverk

Eftir þriggja ára rannsókn á rústum Skriðuklausturs eru híbýlin tekin að skýrast auk þess sem greiningar af ýmsu tagi hafa varpað nýju ljósi á fjölþætt hlutverk þess í samfélagi kaþólskra á síðmiðöldum. Ljóst er að bygging Skriðuklausturs bar svipmót annarra klausturbygginga í Evrópu en hún samanstóð af þyrpingu vistarvera, kapellu og veglegri kirkju sem byggð voru við skýrt afmarkaðan klausturgarð. Greina má nú þegar kirkju, samkomusal, eldhús, borðsal og klausturgarð með brunni á rannsóknarsvæðinu.

Sjúkrahús og griðarstaður

Hitunarsvæði klaustursins.Hlutverk Skriðuklausturs virðist hafa verið sambærilegt við það sem var í Ágústínusarklaustrum erlendis. Af fornleifunum má ráða að í vistarverum Skriðuklausturs fór fram bókfellsgerð og ritun bóka og skjala. Þar var matast, sofið og unnið við hannyrðir. Í klausturgarðinum voru ræktaðar mat- og lækningajurtir, en garðyrkja var iðulega mikil og fjölbreytt í evrópskum klaustrum. Í garðinum var einnig jarðað og af þeim beinagrindum sem þar hafa verið grafnar fram má ráða að rekið hefur verið sjúkrahús á staðnum. Að líkna sjúkum og fátækum var eitt helsta hlutverk kaþólskrar kirkju í evrópskum samfélögum og Ágústínusarklaustur gegndu gjarna því hlutverki ásamt því að taka á móti öðrum pílagrímum. Samkomusalurinn hefur verið nýttur til daglegrar samveru kórbræðranna og bænahalds en klausturkirkjan sjálf notuð fyrir tíðasöng og messur. Útlit kaþólskra klaustra í Evrópu allri mótaðist að líkindum fyrst og fremst af hlutverkum þeirra og verkefnum en þau voru innhverf bænasetur og lokuð frá hinum veraldlega umheimi þrátt fyrir jarðneska tilvist þeirra sem þar höfðust við.

Greiningar á beinum manna og dýra, kolefnum, frjókornum, skordýrum, gjóskulögum og viði geta skilað mikilvægum upplýsingum um umsvif tengdum klaustrinu á Skriðu. Slíkar greiningar eru venjulega gerðar af sérfræðingum að loknum uppgreftri sumar hvert.

Lesið í gjóskulög

GjóskulögÍ fornleifafræði er aska úr eldfjallagosum, gjóskulög, notuð til aldursgreininga. Hvert öskufall myndar greinilegar rákir og skil í jarðveginum með tíð og tíma. Gjóskulagið úr Veiðivatna-gosinu árið 1477 kemur að góðum notum við aldursgreiningu á rústum klaustursins enda var það byggt skömmu eftir það gos. Eins er mjög auðvelt að afmarka einstök tímabil á rannsóknarsvæðinu með hjálp gjóskulaganna. Stuðst var við slíka tímabilaskiptingu við greiningu frjókorna en hana má einnig nýta við aðrar greiningar á jarðvegi eða breytingar á gróðurfari milli ólíkra búsetutímabila.

Rannsóknin

KirkjurústinFornleifarannsóknin á Skriðuklaustri er unnin af Skriðuklaustursrannsóknum, sem er samstarfsvettvangur Gunnarsstofnunar, Minjasafns Austurlands og Þjóðminjasafns Íslands. Aðrir samstarfsaðilar eru Háskólinn í Flórens, IVALSA-stofnunin á Ítalíu og Grampus Heritage and Training í Skotlandi. Dr. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur stýrir rannsókninni.

Fjármagn til rannsóknarinnar kemur úr ýmsum sjóðum, svo sem: Kristnihátíðarsjóði, Leonardo da Vinci og Culture 2000 áætlunum Evrópusambandsins, Fornleifasjóði, RANNÍS, Nýsköpunarsjóði námsmanna, Menningarborgarsjóði og frá Menntamálaráðuneyti og Menningarráði Austurlands. Auk þess hafa ýmis fyrirtæki og stofnanir lagt rannsókninni lið frá upphafi.

 

 

 

Upplýsingar

  • Opið

  • Hvar?

  • Verð

Júní-ágúst: Opið daglega kl. 10-18

Maí og sept: Opið daglega kl. 11-17

Apríl: Opið daglega kl. 12-16

1.-11. október: Opið daglega kl. 12-16

Nóv. - mars er opnunartími óreglulegur. Leitið upplýsinga.

Skriðuklaustur er í Fljótsdal fyrir botni Lagarfljóts. Kort

39 km frá Egilsstöðum

11 km frá Hallormsstað

5 km frá Hengifossi.

Á Skriðuklaustri er einnig Snæfellsstofa Vatnajökulsþjóðgarðs.

Fullorðnir (safn & leiðsögn) 1100 kr.
Börn 16 ára og yngri í fylgd með fullorðnum 0 kr.
Námsmenn 750 kr.
Eldri borgarar/Öryrkjar 550 kr.
Hópar (20+ manns) 900 kr.
Leiðsögn fornleifasvæði hópar (10>)
Fullorðnir 600 kr.
Börn 16 ára og yngri í fylgd með fullorðnum 0 kr.

 

 

Quotes

Innra með sér var hann
frá sér numinn af unaði,
fann til þess í hverri taug
     og blóðdropa,
að hann var einkasonur
þessara hugumstóru fjalla.

Saga Borgarættarinnar 1929


Á döfinni

Engir viðburðir á næstunni