Sunnudaginn 30. mars kl. 14 verður opnuð sýningin Tréskurður – Handverk og list. Á sýningunni eru fjölbreytt skurðverk eftir tólf félagsmenn í Félagi áhugamanna um tréskurð, sex karlmenn og sex konur. Verkin eru úr ólíkum viðartegundum og af fjölbreyttum toga; lágmyndir, smáhlutir, askar, lampar, speglar, kistlar og styttur svo nokkuð sé nefnt. Verkin eru ýmist hefðbundin tréskurðarverk eða eigin hugarsmíð tréskeranna. Auk tréútskurðar eru á sýningunni gripir úr horni og hvaltönnum. Sýningin er komin frá Menningarmiðstöðinni Gerðubergi og sýningarstjóri er Kristín Þóra Guðbjartsdóttir.

Þátttakendur í sýningunni eru þau; Anna Lilja Jónsdóttir, Bjarni Þór Kristjánsson, Friðgeir Guðmundsson, Guðmundur Ketill Guðfinnsson, Guðný Jóhanna Kjartansdóttir, Jón Adólf Steinólfsson, Karen Huld Gunnarsdóttir, Lilja Sigurðardóttir, Sigga á Grund, Sigríður Sigurðardóttir, Sigurjón Gunnarsson og Stefán Haukur Erlingsson. Sýnendurnir hafa sumir hverjir stundað tréútskurð í áratugi og hafa hann starfi sínu á meðan aðrir hafa nýlega kynnst tréskurði og hafa hann sem áhugamál meðfram annarri vinnu.

Sýningin Tréskurður – Handverk og list stendur til 4. maí á Skriðuklaustri. Hún verður opin á sunnudögum í apríl (kl. 14-17), og á þriðjudögum og miðvikudögum (kl. 11-15) og um páskana (kl. 12-17).