– Reykjavík og Berlín næsta sunnudag
 Aðventa, sagan um Fjalla-Bensa og svaðilfarir hans á fjöllum vikurnar fyrir jól, sem Gunnar Gunnarsson skrifaði árið 1936 hefur unnið sér sess sem jólasaga hérlendis hin síðari ár. Á hverju ári er hún lesin í Útvarpinu síðustu daga fyrir jól og lestri hennar lokið síðdegis á aðfangadag. Á síðustu árum hefur sá siður jafnframt skotið rótum að lesa skáldsöguna upphátt fyrir gesti víða um land og einnig erlendis.
Í ár dreifist upplestur á Aðventu á tvær helgar á þeim stöðum sem vitað er um. Sunnudaginn 9. desember mun Hjörtur Pálsson lesa söguna í Gunnarshúsi í Reykjavík að Dyngjuvegi 8. Rithöfundasamband Íslands stendur fyrir þeim lestri. Aðgangur er ókeypis og heitt á könnunni en lesturinn hefst kl. 13.30. Sama dag verður Aðventa lesin á þýsku í samkomusal norrænu sendiráðanna í Berlín kl. 14.00. Þar mun þýski leikarinn Matthias Scherwenikas lesa söguna og verður boðið upp á íslenskt bakkelsi í hléi. Sendiráð Íslands og Gunnarsstofnun standa fyrir þeim upplestri en Aðventa kom fyrst út á þýsku hjá forlaginu Reclam árið 1936 og er vel þekkt meðal þýskra unnenda íslenskra bókmennta.
 
Á þriðja sunnudegi í aðventu, hinn 16. desember, verður Aðventa lesin samtímis á tveimur stöðum. Menningarmiðstöð Þingeyinga stendur fyrir upplestri á Grenjaðarstað og hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri í Fljótsdal mun Ævar Kjartansson lesa söguna. Lesturinn hefst á báðum stöðum kl. 14 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.