Fyrsta færsla í vinnudagbók Odds Kristjánssonar yfirsmiðs á Skriðuklaustri vegna Gunnarshúss var fyrir nákvæmlega 75 árum, 5. júní. Þó að framkvæmdir væru hafnar fyrr við að taka grunn fyrir húsið þá markar þessi dagsetning ákveðin kaflaskil og frá og með þessu degi fjölgaði þeim jafnt og þétt sem unnu að húsbyggingunni í Fljótsdal allt sumarið 1939. Þess verður minnst sunnudaginn 22. júní nk. að 75 ár eru liðin frá því Gunnarshús reis sem höll í dalnum. Gunnarsstofnun hvetur alla gesti á Skriðuklaustri til að gefa afmælisbarninu koss eða knús í sumar og setja inn á samfélagsmiðla undir merkinu #skriduklaustur75. Hver veit nema verðlaun verði veitt fyrir skemmtilegustu myndirnar þegar haustar. Hægt er að fylgjast með myndaleiknum á Facebook-síðu Skriðuklausturs eða hér.