Konudagserindi um listsköpun íslenskra kvenna á fyrri öldum

Fyrsti viðburður ársins 2024 á Skriðuklaustri er að venju á konudeginum. Að þessu sinni kemur Lilja Árnadóttir, fyrrum sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins, með erindið Með verkum handanna: Um listsköpun íslenskra kvenna á fyrri öldum.  Titill erindisins er hinn sami og yfirstandandi sýningar í Þjóðminjasafni Íslands þar sem sýnd eru öll 15 refilsaumsklæði íslensk sem varðveist hafa frá miðöldum. Sýningin byggir á áratugarannsókn Elsu E. Guðjónsson (1924-2010) á refilsaumi en hún starfaði á Þjóðminjasafni Íslands í rúm 30 ár. Lilja var ráðgjafi við sýninguna og ritstýrði einnig bók Elsu sem kom út í tengslum við sýninguna og hefur vakið mikla athygli.

Erindið hefst kl. 14, sunnud. 25. feb. Aðgangur er ókeypis og eru öll velkomin meðan húsrúm leyfir. Viðburðinum verður einnig streymt á Youtube-rás Skriðuklausturs.

Klausturkaffi býður upp á hádegisverð á undan erindinu og kaffihlaðborð að því loknum. Nánari upplýsingar um það eru á Facebooksíðu Klausturkaffis. 

Jólakveðja úr Fljótsdal 2023

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi óska gestum og velunnurum Skriðuklausturs gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári. Kærar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á árinu sem er að líða. 
We send our best greetings to those who visited us this year and look forward to see you all in 2024. Merry Christmas and Happy New Year.

Rithöfundalest(ur) 2023

Rithöfundalestin brunar um Austurland

Rithöfundalestin verður á ferð um Austurland 16. - 19. nóvember og stoppar á sex stöðum þetta árið. Kjarna lestarinnar mynda höfundarnir: Arndís Þórarinsdóttir með barnabókina MömmuskiptiBergþóra Snæbjörnsdóttir með skáldsöguna Duft - söfnuður fallega fólksinsNanna Rögnvaldardóttir með skáldsöguna Valskan; og Eskfirðingarnir Sævar Guðjónsson og Þórhallur Þorvaldsson með bókina um Palla í Hlíð - stilkur úr lífshlaupi ævintýramanns. Jafnframt verða kynnt fleiri verk er tengjast Austurlandi og verður viðburðurinn á Skriðuklaustri í opnu streymi á netinu.

Upplestrarsamkomur Rithöfundalestarinnar verða sem hér segir:

Fimmtudaginn 16. nóv. á Vopnafirði í Uss Bistro Kaupvangi kl. 20:30; föstudaginn 17. nóv. í Löngubúð á Djúpavogi kl. 20:00; laugardaginn 18. nóv. í Safnahúsinu í Neskaupstað kl. 14:00 og í Skaftfelli Seyðisfirði kl. 20:00. Lestarferðinni lýkur á sunnudeginum 19. nóv. með viðburði á Skriðuklaustri kl. 13.30 (verður einnig í streymi) og á KHB ölstofu á Borgarfirði kl. 20:00.

Allar frekari upplýsingar er að finna á facebook síðum gestagjafa upplestaranna. 

Rithöfundalestin er að stofni til frá 1992 og nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs Austurlands og austfirskra fyrirtækja sem og annarra aðila.

Aukinn raunveruleiki (AR) í nýrri sýningu um Gunnar

Fyrsti áfangi í nýrri miðlun á verkum og lífi Gunnars skálds og fjölskyldu var opnaður í vor á Skriðuklaustri. Helsta tækninýjungin er að nú geta gestir notað síma sína til að fræðast um ýmislegt og velja sína leið til að skoða safnið. Fjölskyldur og yngri kynslóðin geta notið leiðsagnar Ugga litla úr Fjallkirkjunni sem birtist notendur í auknum raunveruleika (AR) á símaskjánum með hjálp töfraspjalds. Þessi nýja tæknilausn hefur lítið verið nýtt hérlendis fram til þessa en býður upp á óteljandi möguleika. Ekki þarf að hlaða niður sérstöku appi í símann heldur nýtir tæknin vafra og myndavél símans til að tengja notandann við gáttina þar sem Uggi litli „býr“. Enn sem komið er kann Uggi aðeins íslensku en til stendur að kenna honum ensku. Opið er á Skriðuklaustri alla daga kl. 10-18 fram til loka ágúst. Aðgangseyrir á safnið er 1200 kr. en 16 ára og yngri fá frítt í fylgd með fullorðnum.

Hliðarviðburður á Bókmenntahátíð í Reykjavík

Föstudaginn 21. apríl kl. 17 verður viðburður í Sunnusalnum í Iðnó í Reykjavík á dögum Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Yfirskrift viðburðarins vísar í Victor Hugo: „Það er ástæðulaust að þegja þó að ekki sé hlustað á þig“.

Skáld frá Slóvakíu lesa úr verkum sínum ásamt höfundum af erlendum uppruna á Íslandi sem stigið hafa inn á íslenskan ritvöll á síðustu árum. Frá Slóvakíu koma: Dominika Moravciková, Jakub Juhás og Juliana Sokolová. Og frá Íslandi eru: Jakub Stachowiak og Mao Alheimsdóttir.

Í umræðum sem Victoria Bakshina stýrir verður athyglinni beint að stöðu bókmennta í Slóvakíu og Mið-Evrópu og hvort staðan sé önnur á Íslandi. Jafnframt verður rætt um hlutverk skáldsins á umbrotatímum, mikilvægi skáldskapar fyrir minnihlutahópa og hvernig það er að vera höfundur af erlendum uppruna á Íslandi.

Viðburðurinn er skipulagður af Gunnarsstofnun og Rithöfundasambandi Íslands í tengslum við verkefnið „Epic Residencies“ sem er stutt af Uppbyggingarsjóði EES og snýr að menningarsamstarfi Íslands, Slóvakíu og Noregs.

 

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur